Richard Serra: Áfangar

Richard Serra, Áfangar, 1990.

Richard Serra: Áfangar

Hafnarhús

-

Í ár er aldarfjórðungur síðan umhverfisverkið Áfangar var sett upp í Vesturey Viðeyjar. Listahátíð í Reykjavík 1990 átti frumkvæðið að uppsetningu verksins en Reykjavíkurborg stóð fyrir byggingu þess.

Á sýningunni í Hafnarhúsi eru teikningar og grafísk verk sem Serra gerði í tengslum við Áfanga auk myndbanda af uppsetningu verksins og viðtals við listamanninn. Sérstök áhersla er á tenginguna við Viðey og gestir sýningarinnar eru hvattir til að fara í eyjuna og sjá verkið sjálft.

Áfangar er umhverfislistaverk sem leggur undir sig alla Vestureyju og setur sterkan svip á ásýnd hennar og umhverfi.

Verkið er úr stuðlabergi og vísar þannig til jarðsögu eyjarinnar en í henni má finna stuðlabergsinnskot og aðrar stórbrotnar bergmyndanir. Verkið samanstendur af 18 stuðlabergsdröngum sem standa tveir og tveir saman og mynda hring um eyjuna.  Annar dranginn í hverju pari er 3 metrar á lengd og staðsettur í 10 metra hæð en hinn er 4 metrar og staðsettur í 9 metra hæð. Toppar dranganna eru því allir jafnir, 13 metrum yfir sjávarmáli. Mislangt er á milli dranganna en bilið ákvarðast af landhallanum. Verkið vísar þannig í legu landsins.

Ef hallinn er mikill standa drangarnir þétt saman en annars er lengra á milli. Allir drangarnir eru sýnilegar af hæsta punkti eyjunnar, sem er í 18 metra hæð.

Verkið Áfangar er einstakt í ferli Serra, bæði vegna umfangs þess og efnis. Serra er best þekktur fyrir stálskúlptúra þar sem lagt er útaf þéttbýlu borgarumhverfi samtímans. Tengslin við umhverfið eru sem rauður þráður í verkum Serra en í Áföngum er umhverfið ekki manngert. Óhöggin náttúrsteinninn rennur saman við óspillt umhverfi Vestureyjar þannig að úr verður órjúfanleg heild. Það er eins og að drangarnir hafi sprottið uppúr stuðlaðu grágrýtinu sem myndar eyjuna. Fyrir bragðið verður tími verksins annar en tími stálverkana—tími jarðfræðinnar fremur en tími borgarlífsins. En um leið tengist verkið þeim tíma sem áhorfandinn upplifir á göngu sinni um eyjuna. Reynsla hans felist í því að ganga og horfa eða, eins og Serra segir, að „láta þessa steindranga mæla landið og mæla tengsl áhorfandans við sitt eigið fótatak“. Orðið „áfangi“ merkir vegalengd milli tveggja áningarstaða en vísar líka til áningarstaðarins sjálfs. Stuðlabergspörin mynda áningarstaði á göngu áhorfandans. Hann stoppar um stund, ekki til að skoða hvern dranga fyrir sig eins og hefðbundna höggmynd, heldur til að skoðar umhverfið sem drangarnir ramma inn—fjall í fjarska, eyju, jökul, borgarlandslag (Esju, Engey, Snæfellsjökul, miðbæ Reykjavíkur). Þannig hverfist verkið um tengslin í náttúrunni fremur en hverja einingu fyrir sig. Það dregur ekki athyglina að sjálfum sér held að umhverfinu sem það opinberar.

Á sýningunni í Hafnarhúsi eru 19 teikningar sem Serra gerði af Áföngum árið 1990 með olíukrít á pappír og gaf Listasafni Íslands. Auk þeirra eru 30 grafísk verk—ætingar og þrykk—frá 1991 sem eru í eigu Landsbanka Íslands. Þessi verk eru ekki hugsuð sem skýringarmyndir eða myndskreytingar af umhverfisverkinu, heldur eru þau tilraun til að umbreyta því í nýtt tungumál, „to distill it into another language“ eins og Serra kemst að orði. „Sú reynsla að gera skúlptúrinn var hvati sem leiddi til ólíkra athafna eins og að teikna eða æta myndir.“ Verkin eru því sjálfstæð listaverk sem áhorfandinn getur notið á eigin forsendum.

Á sýningunni eru einnig 3 vídeóverk eftir Svein M. Sveinsson (Plús film) sem er varpað samtímis á þrjá veggi í C-sal. Á einum vegg má sjá og heyra Serra gera hugmyndum sínum skil. Í annarri mynd er fylgst með undirbúningi og uppsetningu verksins, allt frá því að Serra gerði fyrstu skyssurnar og þar til verkið var afhjúpað árið 1990. Og í þriðju myndinni sést verkið eins og það lýtur út fullklárað við mismunandi skilyrði á mismunandi árstíðum.

Áhersla er lögð á bein tengsl sýningarinnar við umhverfisverkið sjálft með reglulegum ferðum í Viðey. Boðið er uppá leiðsagnir í Hafnarhúsi og í eyjunni á hverjum laugardegi frá júní–ágúst. Og boðið er uppá 4 vikulöng námskeið um myndlist og náttúruskoðun fyrir börn og unglinga þar sem þátttakendur fá tækifæri til að njóta íslenskrar náttúru,  teikna, mála, móta, skrá niður hugleiðingar sínar og tengja við verkið Áfanga og sýninguna í Hafnarhúsi.

Richard Serra (f. 1939), er einn virtasti myndlistarmaður samtímans. Mörg leiðandi söfn hafa haldið einkasýningar á verkum hans, m.a. Metropolitan Museum í New York árið 2010 og MoMA, sem hefur heiðrað hann með tveimur yfirlitssýningum, árin 1986 og 2007. Verk hans hafa verið sýnd tvisvar á Feneyjatvíæringinum og fjórum sinnum á Documenta sýningunni í Kassell, Þýskalandi. Og þannig má lengi telja enda hefur Serra verið lýst sem risa í myndlist samtímans  ("giant of modern art“)..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarstjóri/-ar

Hafþór Yngvason

Umfjöllun fjölmiðla

Listamenn

Boðskort