Patrick Huse: Penetration

Patrick Huse: Penetration

Patrick Huse: Penetration

Hafnarhús

-

Sýningin er lokaþáttur þríleiks eða trílógíu sem norski listamaðurinn Patrick Huse hefur unnið að á níu ára tímabili. Tvær fyrri sýningarnar voru Norrænt landslag sýnd í Hafnarborg árið 1995 og Rift sýnd á Kjarvalsstöðum 1999. Viðfangsefni Patricks í þessu langtíma sýningarverkefni eru vangaveltur um hvað náttúran er í reynd, hvernig hugtakið er notað í ýmsu samhengi og hvernig það tengist "landslagi".

Patrick hefur leitað fanga á einni breiddargráðu nokkurra landa á norðlægum slóðum, aðallega í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi.

Í texta Gunnars Sörensen í sýningarskrá með sýningunni segir m.a. um trílógíu Patricks: Norrænt landslag var útsýn frá óvistlegum svæðum sem virtist lítill vegur að lifa sig inn í eða þekkja, þar vottaði ekki fyrir mannlegri návist. Rift sýndi nærgöngular úrklippumyndir af sams konar náttúru en Penetration, sem nú er sett upp í Hafnarhúsi, má líta á sem kjarnaborun í efni og formgerð þessara úrklippna.

Verkin eru þannig fjarri því að vera landslagslýsingar, kannski er nær að líta á þau sem klókindalegan milliveg þess að vera náttúrumyndir og náttúruform í sjálfum sér. Því að í vissum skilningi vísa þau ekki til landslagsþátta heldur eru sjálf landslagsbrot, ofurseld sömu þróun myndunar og rofs og sjá má í náttúrunni.

Á sýningunni í Hafnarhúsinu gefur einnig að líta minningarbrot frá Norrænu landslagi og Rift. Patrick hefur verið tíður gestur á Íslandi vegna sýningaverkefnisins en hann hefur, þegar allt er talið, búið og starfað hér í um það bil eitt ár.

Listamaðurinn er nú staddur hér á landi í tilefni opnunarinnar. Penetration var fyrst opnuð í Noregi en fer héðan til Bandaríkjanna..