Ólöf Nordal: Úngl

Ólöf Nordal: Úngl

Kjarvalsstaðir

-

Yfirlitssýning á verkum myndlistarmannsins Ólafar Nordal á Kjarvalsstöðum. Verkin á sýningunni spanna tæplega þrjátíu ára feril Ólafar en sýningin er hluti af því markmiði Listasafns Reykjavíkur að rannsaka og kynna feril mikilsverðra starfandi listamanna.

Ólöf Nordal vísar gjarnan til þjóðsagna, þjóðlegrar arfleifðar og menningarlegs minnis í verkum sínum sem hún setur í nútímalegt samhengi - oft á kaldhæðinn hátt. Náttúran og tengsl okkar við landið eru henni einnig hugleikin.

Í nýjum verkum á sýningunni nýtir Ólöf gamlar aðferðir við torfhleðslu og móskurð á áhugaverðan hátt. Gestir fá tækifæri til þess að kynnast verkum hennar og þá um leið þeim menningarbrunni sem hún sækir í efnivið verka sinna; verka sem sýna djúpa vitund um fortíðina en fjalla á eldskarpan hátt um samtíma okkar og framtíð. Titill sýningarinnar Úngl vísar í þjóðsöguna af Kolbeini jöklaskáldi þar sem Kolbeinn kveðst á við Kölska í einskonar vísna-einvígi og hefur betur með því að nota orðið „úngl“ sem rímorð við tungl. Einvíginu lýkur með því að Kölski steypist fram af bjargi – skapandi notkun Kolbeins á tungumálinu hefur sigur. Sköpunargáfan og sá kraftur sem henni fylgir býr til sinn eigin sannleika og gefur okkur sem fyrir verðum tækifæri til að upplifa nýja hugsun eða nýja nálgun við eldri viðfangsefni.

Þannig leitar Ólöf Nordal í brunn sagna og menningar fyrri tíma til að skapa okkur nýjan sannleik. Í öllum verkum hennar má sjá hvernig hún nýtir þekkingu á íslenskri menningu til þess að snerta ýmis aðkallandi viðfangsefni samtímans. 

Ólöf Nordal er þekkt fyrir fjölbreytt verk og á hún áberandi verk í borgarlandinu – einna þekktast er Þúfan sem stendur á Granda. Verk Ólafar hafa verið sýnd á öllum helstu sýningarstöðum hér á landi en einnig alþjóðlega. Ólöf er fædd árið 1961 í Danmörku. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981-85, við Gerrit Rietvelt Academie í Hollandi 1985, við Cranbrook Academy of Art 1989-91 í Bandaríkjunum og við höggmyndadeild Yale háskóla í Bandaríkjunum 1991-93. 

Sýningin Úngl er hin þriðja í röð árlegra sýninga á Kjarvalsstöðum þar sem sjónum er beint að ferli starfandi listamanna sem þegar hafa með fullmótuðum höfundareinkennum sett svip sinn á íslenska listasögu.

Í tengslum við sýninguna gefur Listasafn Reykjavíkur út veglega sýningarskrá með ljósmyndum af sýningunni, myndum af verkum og textum um Ólöfu sjálfa og viðfangsefni hennar. Þar fjallar Æsa Sigurjónsdóttir um aðdráttarafl upprunans, franski listfræðingurinn Didier Semin skrifar grein um alþjóðlegar tengingar í verkum Ólafar og Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur, kallar fram rödd listakonunnar sjálfrar í samtali sem nefnist Framhald af þjóðsögu. Þar eru birtir sagnaþættir sem Ólöf hefur skráð og tengjast tilurð og hugmyndaheimi verka hennar. Sýningunni verður fylgt eftir með viðamikilli dagskrá..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Ólöf Kristín Sigurðardóttir

Umfjöllun fjölmiðla

Listamenn

Boðskort