Hafnarhús
-
Það er bæði mikil áskorun og lyftistöng fyrir Listasafn Reykjavíkur að hefja nýtt sýningaár með sýningu á verkum eftir Ólaf Elíasson sem vakið hefur gríðarlega athygli hvarvetna undanfarin ár. Sterk staða Ólafs Elíassonar í hinum alþjóðlega listaheimi var endanlega staðfest með sýningu hans í Túrbínu salnum í Tate Modern í Lundúnum sem opnuð var í október síðastliðnum.
Sýningin hefur vakið gríðarlega athygli meðal fagfólks, fjölmiðla og almennings og eru allir á einu máli um mikilfengleika hennar. Það er Listasafni Reykjavíkur mikil ánægja að hefja árið 2004 með sýningu á nýjum og eldri verkum eftir þennan rómaða listamann, en fjórir af sex sýningarsölum Hafnarhússins eru lagðir undir sýninguna, sem er kostnaðarsamasta verkefni safnsins frá upphafi.
Margir aðilar og fyrirtæki leggja sýningunni lið og sýna þannig í verki ríkulegan skilning á mikilvægi hennar á alþjóðlega vísu. Meðal þeirra eru Flugleiðir og Höfuðborgarstofa. Þá hefur Listasafn Reykjavíkur haft frumkvæði að því að gerð verði heimildarmynd um Ólaf, en hún er tekin á Íslandi, í Lundúnum og í Berlín og verður sýnd í Ríkissjónvarpinu í febrúar. Saga film framleiðir myndina.
Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út vegleg sýningarskrá. Skráin kostar 1800 kr. og er til sölu á safninu og í öllum helstu bókaverslunum. Í tengslum við sýninguna verða haldin námskeið og fyrirlestrar fyrir ýmsa aldurshópa þar sem boðið er upp á nánari kynni af verkum Ólafs Elíassonar og blandað er saman ýmist leiðsögn um sýninguna og fyrirlestrum eða leiðsögn og skapandi vinnu.
Ólafur Elíasson á íslenska foreldra en fæddist í Kaupmannahöfn árið 1967. Hann sótti nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn frá 1989 til 1995. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum um allan heim og verk hans má finna bæði í almennum söfnum og einkasöfnum svo sem í Solomon R Guggenheim-safninu í New York, Nýlistasafninu í Los Angeles, Deste stofnuninni í Aþenu og í Tate í London.
Nýlega hefur hann haldið miklar einkasýningar í Tate Modern i London, í Kunsthaus Bregenz, Nýlistasafninu í París (Musée d´Art Moderne de la Ville de Paris) og í ZKM (Miðstöð lista og miðlunar) í Karlsruhe auk þess að vera fulltrúi Danmerkur á Feneyjartvíæringnum árið 2003. Hann býr nú og starfar í Berlín í Þýskalandi..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort
Sýningarskrá JPG