Kjarvalsstaðir
-
Norski málarinn Odd Nerdrum (f. 1944) hefur sérstöðu innan samtímalistar. Hann hefur bæði vakið óbeit og aðdáun með því að beita ögrandi tilfinningalegri höfðun og vera gamaldags af fullri einurð. Odd Nerdrum er einn af helstu sagnamönnum okkar tíma, djúpsær og sífellt sjálfum sér samkvæmur í málverkum sem alltaf eru í beinum tengslum við eigið lífshlaup.
Hann hefur skapað sér sérstakt landslag og sinn einkalega takmarkalausa tíma.
Mikilvægasta tema í verkum hans er utangarðsmaðurinn, sá sem kýs sér stað við jaðarinn eða hefur verið hafnað. Djarfleg ummæli Odd Nerdrum í fjölmiðlum hafa vakið athygli almennings á honum. Á sýningunni má sjá þróun hans sem málara frá miðjum níunda áratugnum en sérstök áhersla er lögð á verk frá síðasta skeiði – eftir hina storkandi yfirlýsingu um að hann væri kitsch málari. Allt frá því Odd Nerdrum kom fyrst fram árið 1964 hefur verið ljóst að módernisminn var honum ekki að skapi.
Fyrirmyndir sínar sótti hann í staðinn til ljóstækni Rembrandts og 17. aldar-raunsæis Carvaggios. Á áttunda áratugnum gæddi hann list sína oftast félagslegum og pólitískum vísunum en verkin frá hinum níunda hafa um sig goðsagnakenndan hjúp. Verurnar í verkum hans frá þessum tíma eru einatt á reiki um einhverskonar eyðilönd.
Odd kom til Íslands í fyrsta sinn vorið 1986 og fann þar fyrir ytri ásýnd þess landslags sem bjó innra með honum, þar sem mörkin hafa leyst upp milli fjarlægrar fortíðar, nútímans og framtíðarinnar.
Á fyrri helmingi tíunda áratugarins gætti vaxandi óþreyju og kvíða í verkum hans og samband karls og konu þróast þá í hatrömm átök á léreftinu. Heldur mildari blær stafar af ljósleitum og léttleikandi málverkum frá sumrinu 1997. Málarinn hefur á undanförnum árum gert sér kyn og líkamsferli að tema og í mörgum verka hans er á ferli tvíkynjungur þar sem karl og kona blandast í eitt. Síðla árs 1977 sagðist Odd smátt og smátt hafa komist að þeirri niðurstöðu að hann væri kitsch málari. Hann telur hinsvegar að nú hafi listin og kitsch skipt um hlutverk.
Listin er gegnsýrð háði og fjarlægð en í kitschinu er djúp alvara. Heimavöllur kitschins er einkalífið og það höfðar til einstaklingsins. Odd Nerdrum hefur beðið gagnrýnendur sína afsökunar. Hann hafi nú komist að því að hann sigldi allan tímann undir fölsku flaggi með því að kalla sig listamann.
Við opnun sýningarinnar verður frumsýndur leikþátturinn Listveldið eftir Odd þar sem listmálararnir tveir Nerdrum og Munch ræða saman um listina. Leikstjóri er Hávar Sigurjónsson en leikarar eru Sigurður Karlsson og Arnar Jónsson..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Eiríkur Þorláksson
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort
Sýningarskrá JPG