Ný verk Clemente

Ný verk Clemente

Ný verk Clemente

Kjarvalsstaðir

-

Listamaðurinn Francesco Clemente er einn nafntogaðasti listamaður sinnar kynslóðar. Hann hóf feril sinn á Ítalíu í hugmyndalist og hélt sína fyrstu einkasýningu í Róm 1971. Undir lok áttunda áratugarins tók hann að mála og hlaut fljótt viðurkenningu á alþjóðavettvangi.

Verk hans voru valin á margar mikilvægustu samsýningar þess tíma, eins og Feneyja tvíæringinn 1980, og árið 1982 var Clemente valinn til þátttöku í Documenta 7 (í Kassel í Þýskalandi) og Zeitgeist (í Berlín). Verk Francesco Clemente voru þá tengd verkum listmálara eins og Enzo Cucchi, Sandro Chia, Nicola de Maria og Mimmo Paladino (meðal annarra) undir heitinu Transavanguardia.

Þessi hreyfing, ásamt hinum þýsku Neo-expressionistum, var einn helsti grundvöllur endurnýjaðs áhuga á málverkinu og evrópskri myndlist yfirleitt á níunda áratugnum. Clemente heimsótti Indland í fyrsta sinn 1973, og hefur frá þeim tíma dvalið þar langdvölum. Hann blandar austrænum og vestrænum viðfangsefnum og táknmyndum saman í verkum sínum og magnað myndmál tengir hið hversdagslega og framandi saman í afar vel mótaða samræðu. Því reynast myndir hans, sem við fyrstu sýn eru kunnuglegar og opnar, við nánari athugum dularfullar og óræðar.

Clemente hefur oft notað sjálfsmyndina til að rannsaka innri gildi, allt frá hinu kynferðislega til hins andlega.

Þrátt fyrir þetta er list hans ávallt opin, og gefur inntak sitt í skyn fremur en að tilkynna það með beinum hætti. Sýningin sem verður sett upp í Listasafni Reykjavíkur ber yfirskriftina Ný verk, og samanstendur af yfir sextíu verkum - málverkum, pastelmyndum og vatnslitamyndum, sem hafa öll verið gerð á síðustu þremur árum. Þessi sýning kemur í kjölfar stórrar yfirlitssýningar á verkum hans sem var haldin í Guggenheim-safninu í New York í Bandaríkjunum og í Bilbao á Spáni 1999.

Í þessum nýju verkum eru færri ímyndir líkamans, en hégómleikinn er orðin helsta viðfangsefnið. Form verkanna er helst ferningur og litaspjaldið milt og fábrotið, sem gefur verkunum reisulegt og friðsælt yfirbragð. Erótík og ofbeldi bregður hins vegar fyrir, og skapa kröftug og áleitin listaverk.

Francesco Clemente býr og starfar í New York, en býr einnig hluta ársins í Madras á Indlandi og í Róm á Ítalíu. Sýningin "Ný verk" er skipulögð í samvinnu Irish Museum of Modern Art í Dublin og Listasafns Reykjavíkur. Flest verkin á sýningunni koma frá listamanninum, sem og frá Galerie Bruno Bischofberger í Zurich í Sviss og Gagosian Gallery í New York í Bandaríkjunum og einstökum listaverkasöfnurum, sem hafa góðfúslega lánað verk sín á sýninguna..

Myndir af sýningu