Myrkra­verk

Kristinn Pétursson

Myrkraverk

Kjarvalsstaðir

-

Á sýningunni eru verk listamanna sem hafa fengið innblástur úr þjóðsögum og ævintýrum eða skapað sinn eigin huliðsheim. Hvort tveggja endurspeglar mannlega tilvist, samskipti, tilfinningar og hugarástand. Sýningin er uppfull af dularfullum og spennandi verkum sem kveikja á ímyndunaraflinu einmitt á myrkasta tíma ársins.

Hér mætast ólíkar kynslóðir listamanna:
Alfreð Flóki (1938–1987)
Ásta Sigurðardóttir (1930-1971)
Jóhanna Bogadóttir (1944)
Kristinn Pétursson (1896–1981)
Sigga Björg Sigurðardóttir (1977)
Sigurður Ámundason (1986)

Heiti sýningarinnar, Myrkraverk, er hálfgerður orðaleikur sem sprettur upp úr þeim árstíma sem hún stendur yfir. Skammdegið er alltumlykjandi, sá tími árs þegar við skynjum dag frá degi hvernig myrkrið víkur smám saman fyrir birtu hækkandi sólar.

Það sem áður var hulið tekur hægt og sígandi á sig skýrari mynd. Þá á heitið ekki síður við inntak þeirra verka sem eru  á sýningunni. Þar eru verk listamanna sem hafa sótt sér innblástur úr þjóðsögum og skáldskap eða skapað sinn eigin huliðsheim tákna og mynda. Hún er uppfull af dularfullum og spennandi myndum sem kveikja á ímyndunaraflinu einmitt á dimmasta tíma ársins. Sumar vísa til kunnra sagna sem skráðar hafa verið en aðrar hafa mótast með sjálfstæðum hætti í frásagnarheimi listamanna.

Hvort tveggja endurspeglar mannlega tilvist, samskipti fólks, tilfinningar og hugarástand. „Myrkraverk“ sýningarinnar eru flest unnin á pappír, teikningar og grafíkverk – eða ef til vill væri hér nærtækara að nota hið alíslenska en lítt notaða hugtak, svartlist.

Hið yfirnáttúrulega og ótrúlega var áður vettvangur sem mannleg hegðun var yfirfærð á, til að einangra, rannsaka og reyna ef til vill að skilja betur. Þetta gildir um þjóðsögurnar þar sem tilfinningar, kostir og lestir voru ýkt til skemmtunar og lærdóms. Í sögunum endurspeglast þjóðtrú Íslendinga, þær lýsa hverdagslífi fólks, störfum þess, hugmyndum, trú og löngunum. Sögurnar eiga rætur að rekja til þeirrar alþýðumenningar sem lifði í sveitasamfélaginu en þær hafa áhrif til okkar samtíma. Einn þeirra sem heillaðist af þessum sagnaheimi var listamaðurinn Kristinn Pétursson (1896–1981).

Kristinn lagði fyrst stund á höggmyndalist en snéri sér síðan að málverki og  grafík. Hann vann eirstungur einna fyrstur Íslendinga, fyrst seríu af íslenskum torfbæjum á 3. áratugnum en síðar „þjóðsagnaraderingarnar” sem hann nefnir svo í dagbókum sínum. Kristinn vakti nokkra athygli með þessum verkum sínum og voru nokkur valin í myndskreytta útgáfu íslenskra þjóðsagna. Þegar listamaðurinn hafði sest að í Hveragerði á fimmta áratugnum – líkt og fleiri listamenn á þeim tíma – dró hann aftur fram þessar þjóðsagnamyndir og tók til við að handlita þær. Niðurstaðan eru meðal annars þessi verk sem nú hanga hér á sýningunni og hafa aldrei áður komið fyrir sjónir almennings. Víst er að þessar lituðu „þjóðsagnaraderingar” Kristins eiga engan sinn líka í íslenskri listasögu og þótt víðar væri leitað.

Kristinn hvarf snemma frá grafíkinni og tók til við málverk í súrrealískum anda. Hann hafði um skeið fyrir reglu að skrá drauma sína og vann upp úr þeim furðuverk þar sem meðal annars ljósastaurar og skór lifnuðu við. Þá dvaldi Kristinn löngum við landslagsverk þar sem hann gerði tilraunir með geómetríu, abstaksjón og óvenjuleg litbrigði. Hann vildi þróa persónulegan stíl í landslagsverkunum með áherslu á veðurfar, form og liti. Verk hans vöktu ekki ýkja mikla hrifningu, þau voru tilraunakennd og úr takt við það sem efst var á baugi í íslenskri list. Kristinn hélt sína síðustu opinberu sýningu árið 1954 á vinnustofu sinni í Hveragerði en eftir það hélt hann sig til hlés og vann að verkum sínum í kyrrþey allt til æviloka. Þá urðu formtilraunir hanns enn framsæknari, verkin óhlutbundin og hann tók einnig að vinna þrívíðar formtilraunir. Kristinn var heimspekilega sinnaður, ritaði dagbækur og skráði niður ýmsar hugleiðingar um myndlist. Allnokkurt safn málverka og teikninga liggja eftir Kristinn, en síðustu skúlptúrar hans eru glataðir. Stærsta safn verka hans er í eigu Listasafns ASÍ en grafíkverkin sem hér er að finna eru í einkaeigu.

Þjóðsögurnar sem við sjáum vakna til lífsins í grafíkmyndum Kristins Péturssonar eru einnig til grundvallar í mannsspilum Ástu Sigurðardóttir (1930-1971). Þar gengur hún enn lengra og ljær persónum sagnanna líf fremur en að myndskreyta þá atburði sem verða. Kunnuglegir galdramenn og –konur, afturgöngur og aðrir kynlegir kvistir koma okkur ljóslifandi fyrir sjónir með skýr persónueinkenni. Á miðju spili er skrautbekkur sem kallast á við hvíta- og svartagaldur og má þar sjá ólíka galdrastafi. Þjóðsagnaspil Ástu fóru ekki í framleiðslu á sínum tíma og eru upprunalegar teikningar hennar varðveittar í Landsbókasafninu. Þær má sjá á sýningunni Sjónarhornum í Safnahúsinu við Hverfisgötu en hér birtast þær á skjá ásamt heiti viðkomandi persóna.

Áhugi Ástu á þjóðsögunum kann að hafa tengst því að þar má greina mynd af þjóðfélagsstöðu kvenna í gamla bændasamfélaginu. Ástu var hugleikin sú staðalímynd sem hún mátti búa við sem kona í eigin samtíma, hugmyndir sem samfélagið hafði mótað um konur og hvernig þær áttu að haga sér. Úr gömlu þjóðsögunum má lesa afstöðu karla til kvenna fyrr á öldum en þar koma líka fram draumar, væntingar og þrár kvenna um annað hlutskipti og betra líf. Ef lesa má raunsanna samfélagslýsingu úr fantasíum þjóðsagnanna þarf ekki að lesa á milli línanna í smásögum Ástu sjálfrar. Svo raunsæislega þótti hún lýsa aðstæðum og framvindu að lesendur lögðu gjarnan líf skáldkonunnar og skáldverk hennar að jöfnu. Yrkisefni Ástu voru iðulega þeir sem minna mega sín, þeir sem þjást í togstreytu annars vegar á milli eigin óska og hins vegar krafna samfélagsins. Persónur hennar eru konur á jaðri samfélagsins, fátæk börn eða undirmálsfólk sem þráir að samfélagið taki það í sátt.

Árið 1961 komu smásögur Ástu út saman í bók sem prýdd var nokkrum dúkristum hennar. Árinu áður hafði hún ásamt ljóðskáldinu Þorsteini frá Hamri gefið út bókverkið Tannfé handa nýjum heimi, prýtt eigin dúkristum með ljóðum Þorsteins. Grafíkverk Ástu voru aldrei þrykkt sem eiginleg myndverk heldur einungis birt í útgefnum bókum. Fjölskylda Ástu gefið góðfúslegt leyfi fyrir því að þrykkja nokkur sýningareintök af dúkristum hennar sem enn eru varðveittar, til þess að sýningargestir megi betur fá notið þessara fágætu myndverka. Þar má sjá persónur og táknræna túlkun á atburðum sem greint er frá með ógleymanlegum hætti í sögunum.

Ásta Sigurðarsóttir storkaði viðteknu siðgæði og gerði uppreisn gegn ríkjandi gildum samfélagsins. Sömu sögu má segja um listamanninn Alfreð Flóka (1938–1987). Þau notuðu bæði listina til þess að draga fram í dagsljósið það sem alla jafna var mönnum hulið. Til þess að sýna fólki inn í heim sem er á skjön við viðteknar venjur, umfaðma mannlegan breyskleika og til þess að afhjúpa borgaraleg gildi og samfélagslegar kreddur. Verk Alfreðs Flóka státa af ríkulegri frásagnagleði en standa flest án skírskotunar til texta. Undantekning eru eiginlegar myndskreytingar hans eins og til dæmis í útgáfu átta, þýddra erlendra sagna, Hrollvekjur, frá árinu 1982.  Alfreð Flóki leitaði í aðferðir symbólisma og súrrealisma, sem og í heim dulspeki og  skáldskapar. Mannleg tilvera birtist í fígúratívum blek- og kolateikningum hans sem mynduðu furðulegan og myrkan myndheim.

Yfir eitt þúsund teikningar eftir Alfreð Flóka eru varðveittar í Listasafni Reykjavíkur. Skissur frá mótunarárum listamannsins sýna hvar hann leitaði sér innblásturs, meðal annars í skáldverkum Dostojefskís og í frásögnum Biblíunnar. Þar er einnig að finna ýmsar myndir af ónefndum grúskurum á kafi í bóklestri. Í verkum hans kemur fram sérstakt og margslungið myndmál sem og persónulegur symbolismi. Fyrsta myndlistarsýning Alfreðs Flóka árið 1959, þegar hann var rétt um tvítugt, vakti mikla athygli. Hann hafði þá verið eitt ár við nám í Listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Allan sinn feril upp frá því vakti hann sterk viðbrögð, bæði sem persóna og með verkum sínum sem hneyksluðu marga. Þar sýndi hann inn í heim undimeðvitundarinnar þar sem ríktu dulúð, óhugnaður og kynórar en einnig gráglettni. Alfreð Flóki vann nánast einvörðungu í teikningu, hann notaði í myndirnar sínar penna og ýmsar tegundir af litakrít, bleki og kolkrít.

Nokkurri furðu má sæta að Alfreð Flóki skyldi ekki reyna sig við svartlistina, en grafíkverk áttu almennu fylgi að fagna síðari hluta starfsævi hans. Þar haslaði sér aftur á móti völl listakonan Jóhanna Bogadóttir (1944). Jóhanna tekst í verkum sínum á við samfélagið og sinn ytri veruleika. Framan af leituðu á hana hugleiðingar um neyslusamfélagið sem síðar hafa þróast yfir í tengsl og umgengni mannsins við náttúruna og umhverfisvernd. Hin síðari ár hafa verk hennar verið undir sterkum áhrifum frá tíðum ferðum hennar til Afríku.

Í fyrstu grafíkverkum sínum mótaði Jóhanna myndheim sem hún hefur sótt í æ síðan. Myndheimurinn hefur tilvísanir í raunveruleikann en þar fyrirfinnast ennfremur huglæg rými og fyrirbæri. Þar eru turnar, dýragrímur, niðursuðudósir og bátar en einnig óræðari tákn, litir og form. Jóhanna yfirfærði þennan frásagnaheim sinn fljótlega í málverk og kölluðust verk hennar þá einkum á við expressjónisma nýja málverksins á níunda áratugnum. Þegar fram liðu stundir varð myndheimur hennar óræðari og málverkin tóku í auknum mæli að vísa til náttúrunnar, til sjávarins og sambýlis manns og hafs.

Um aldamótin fór Jóhanna sína fyrstu ferð til Afríku. Hún heimsótti meðal annars Suður-Afríku, Benín og Úganda og kynntist þar sögu og mannlífi, mannúðarstarfi og myndlistarlífi. Hugleiðingar um samfélag og samstöðu manna rötuðu í verk hennar í ríkulegum táknmyndum þar sem hið framandi og hið kunnuglega renna saman í eina heimsmynd. Kraftar náttúrunnar sem voru áberandi í verkum hennar urðu myndlíking fyrir ólgu í samfélaginu.

Heimkomin eftir áhrifamikla ferð til Benín og lent í miðju efnahagshruni og búsáhaldabyltingu vann Jóhanna að röð grafíkverka á árunum 2008-2009 sem hún nefnir óformlega „Ísland-Afríka“. Þar leitaði hún í eigin táknheim frá því um þremur áratugum fyrr og spann áfram kraftmiklar myndir með samkurli tilvísana til heimahaga sinna í Vestmannaeyjum og til dvalarinnar í Afríku. Í verkunum ríkir upplausn og óreiða, eldar brenna, manneskjur ramba á barmi hengiflugs eða kaffærast undir ofgnótt eigin fjöldaframleiðslu. 

Sigga Björg Sigurðardóttir (1977) hefur mótað heim súrrealískra fígúra sem standa einar eða nokkrar saman. Hún dregur fram mannleg karaktereinkenni og atburðarás sem lýsir tilvist og tilfinningalífi. Á löngum ferli hefur hún byggt upp mynd- og táknheim þar sem tilviljun og innsæi leiða hana áfram. Ein af vinnuaðferðum hennar er að sletta bleki eða leyfa því að leka á pappír og draga síðan fram fígúru úr því sem þar birtist. Í nýlegri verkaröð, Óveru, setur Sigga Björg fram texta við hverja teikningu en fram til þess hafa myndir hennar staðið einar og óstuddar. Þegar yfirskriftir texta og myndar eru skoðaðar virðist heimur smásagna skammt undan: Illur andi, Ég skelli á mig, Morð, Heimsókn, Dagdraumur og Nýr endir. Hvert verk byggist á einhvers konar frásögn en í sjálfu sér eru hvort tveggja órætt; texti og mynd. Þar er engin línuleg framvinda eða annað haldreipi venjulegrar sögu. Þvert á móti myndast lokuð hringrás þar sem upphaf og endir renna saman, framvindan tekur kollsteypu án skýringa eða maður er skilinn eftir í lausu lofti og að því er virðist engu nær. Textinn opnar mögulegar leiðir til lesturs myndanna og öfugt, án þess þó að falla í form myndskreytingar við sögu.

Fremur en að tengja verkin skáldskap eiga ef til vill hugmyndir um dagbók, draumtúlkun eða frjáls hugrenningatengsl betur við verk Siggu Bjargar. Þau endurspegla tilfinningar, líðan eða stemningar úr hversdagslífinu á mjög yfirdrifinn og oft á tíðum grátbroslegan hátt. Viðfangsefnið er alltaf persónur, ein eða fleiri. Mjótt er á muninum á milli ljúfra krútta og hræðilegustu skepna, hvort verurnar meina vel eða illa. Sigga Björg notar myndmál sem endurtekur sig milli verka þannig að hún skírskotar gjarnan í eigin táknheim. Hár, blóð og æla koma við sögu og eru stundum eina tengingin við mannslíkamann í óræðari myndunum, því líkamar geta verið svo afbakaðir að maður veit ekki hvað snýr fram og aftur eða upp og niður. Er hún að teikna mann eða hest? Lögmál um líkamsbyggingu og hlutföll eru látin lönd og leið. Líkamspartar springa, bráðna, leka niður eða mynda mynstur. Ein persóna grúfir sig yfir aðra, kæfir hana, fer inn í hana eða hangir utan í henni. Hér vakna hugmyndir um tilfinningar eins og einmanakennd, ást, meðvirkni, depurð eða hamingju.

Stundum varpa fígúrur Siggu Bjargar skuggum en annars dvelja þær yfirleitt í tvívíðu tómarúmi hvíts pappírs eða auðs striga. Hún vinnur yfirleitt aldrei eftir fyrirfram ákveðinni hugmynd eða skissu heldur er vinnuferlið ein atrenna. Þannig má segja að verkin spretti beint úr undirmeðvitundinni en um leið byggjast þau á löngu mótunarferli frá einni verkaröð yfir í þá næstu. Sigga Björg hefur reynt sig við flesta miðla og hafa persónur hennar birst í málverkum og teikningum á pappír eða beint á veggi sýningarsala. Þá hefur hún bæði mótað þær í skúlptúr og sagt sögu þeirra í „stop-motion“ teiknimyndum. Hvert svo sem formið er fer ekki á milli mála hver á hlut að máli, svo sérstakur og persónulegur er stíll Siggu Bjargar.

Sömu sögu má segja um myndheim Sigurðar Ámundasonar (1986) sem vinnur ekki ólíkt Siggu Björgu í frjálsu flæði. Sérstæðar teikningar hans fara bil beggja, milli hins hlutbundna og óhlutbundna, raunveruleika og fantasíu, háleitra og listsögulegra skírskotana annarsvegar og óhátíðlegra skrípómynda hins vegar. Þær eru unnar með blandaðri tækni, trélitum, kúlupenna, blýanti og túss. Þessum ólíku teiknitólum ægir oft á tíðum saman í einu og sama verkinu. Teikningarnar bera sterkt handbragð höfundarins, form sem flæða úr einu í annað og tilfinningu fyrir gust sem stafar af taktföstum línum þvers og kruss. Ekki er laust við að súrrealistar eins og Salvador Dalí komi til hugar og draumkennd málverk hans af bráðnandi hlutum og bjöguðum fígúrum í yfirgefnu landslagi. Eða ríkulegur táknmyndaheimur listamanna á borð við William Blake. Þá er nærtækt að líta til myndheims tölvuleikja þar sem persónur eigra um á milli ævintýraheima.

Í stærstu og nýjustu verkunum á sýningunni fara saman persónur, atburðir, landslag og byggingar. Svo virðist sem hver mynd fangi tíma eða framvindu, þó ekki sé nema andartakshreyfingu, eins og akandi bíl, mannesku á hlaupum eða ríðandi hest. Þau minni sem fram koma eru sum hver almenn og úr hversdagslífinu en fleiri eru þó upphafin, epísk og yfirdrifin. Verkin koma fyrir sjónir eins og sviðsmyndir. Þar má sjá hallir, súlur, hetjur og riddara, rétt eins og um leikmynd í Wagner-óperu sé að ræða. Tónlistartengingin er ekki langsótt enda hlustar Sigurður á allt milli himins og jarðar við iðju sína. Handverkið og tíminn sem felst í teikningunum gefur til kynna tilraun til að koma ró á hugann en um leið er myndbyggingin óstöðug eins og stormsveipur. Þá er eins og teikningin sjálf sé við það að leysast upp, bráðna eða fjúka burt, og það á eins við um miðilinn sjálfan. Kúlupenni og trélitur munu seint teljast til stöðugra eða sígildra tóla í listasögunni.

Viðfangsefni Sigurðar eru tilvistarlegs eðlis. Þar vakna spurningar um sjálfsmynd og tilgang, hringrás lífs og dauða. Söguhetja brýst fram á sjónarsviðið með sverð reitt til höggs en brotnar upp í nokkur sjálf, samlagast landslagi eða byggingu. Beljandi haf, óræður himinn, dimm göng og tröppur sem enginn veit hvert liggja – sígilt efni martraða. Engin persóna kemur fram heil og óbjöguð; þær eru margbrotnar, láta ekki allt uppi og taka breytingum á miðri leið. Stundum er eins og táknmyndir verkanna spretti úr angist en þar má líka greina frelsistilfinningu og fögnuð yfir tilvist í stöðugri ólgu.

Verkin á sýningunni spanna langt tímabil, þau eru dagsett frá því árið 1933 og til ársins 2018. Þau kallast á við ólíkan tíma, eigin samtíma eða tíma sem nær jafnvel enn lengra aftur. Þjóðsögunum var fyrst safnað saman á 19. öld en sögurnar sjálfar eru misgamlar og vitað er að sumar þeirra hafa varðveist öldum saman. Þrátt fyrir að verkin spanni þannig hugarheim árhundruða eru viðfangsefnin eilíft hin sömu. Þar er manneskjan í miðpunkti og umhverfi hennar, tilvist okkar í einsemd og með öðrum. Þau viðfangsefni leita á listamenn nú sem fyrr og munu að líkindum verða hverri kynslóð fersk uppspretta um alla framtíð.

Þakkir:

Kolbeinn Þorsteinsson og fjölskylda Ástu Sigurðardóttur
Kvennasögusafn
Jóhann Ludvig Torfason
Pétur Arason og Ragna Róbertsdóttir
Landspítalinn
Brynhildur Guðjónsdóttir
og aðrir sem lánuðu verk á sýninguna eða komu að henni með öðrum hætti.

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni