Myndun

Myndun

Myndun

Hafnarhús

-

Alþjóðleg samsýning sjö listamanna: Tomas Saraceno frá Argentínu, Ernesto Neto frá Brasilíu, Ragna Róbertsdóttir frá Íslandi, Ryuji Nakamura og Rintaro Hara frá Japan, Mona Hatoum frá Líbanon og Monika Grzymala frá Póllandi. Sýningarstjóri er Ingibjörg Jónsdóttir.

Rætur þessara listamanna eru ólíkar en það sem sameinar þá er að verk þeirra eru þrívíðar innsetningar sem þeir vinna inn í rými. Verkin endurspegla ákveðna skynjun, hugsun og hrynjanda sem má túlka sem enduróm frá lífinu, frumkröftunum, uppbyggingu efnisheimsins og mótunar alheimsins. Annað sem tengir verkin sterkt saman er að þau hafa orðið til í ferli þar sem orka og tími virðast hafa hlaðið þau.

Verkin höfða vitsmunalega, hugmyndafræðilega og á skynrænan hátt til áhorfandans. Þau koma á óvart með ferskleika sínum, fornri visku og sterkri nærveru. Um listamennina:
Ernesto Neto er einn fremsti listamaður Brasilíu. Abstrakt innsetningar hans eru oft mjög stórar og taka allt rýmið. Hann hefur alltaf unnið með kraft og jafnvægi, rökhyggju og skynjun.

Mona Hatoum er af palestínskur ættum, fædd í Líbanon. Verk hennar hafa átt þátt í að endurskilgreina samtímalist. Þau eru samsett úr þáttum eins og ögrun og hættu. Þau fjalla um áleitin mál, ófrið, menningarlegt ójafnvægi, flótta, útlegð og heimilisleysi. Misvægi og misnotkun valds.

Monika Grzymala frá Póllandi vinnur með innsetningar sem eru staðbundnar, þrívíðar teikningar sem verða til við könnun á aðstæðum, upplifun og hughrifum hennar af þeim stöðum sem hún kýs að vinna á og sýna. Innsetningarnar eru einnig tímabundnar og fjalla um hringrás lífsins og eilífar breytingar.

Verk Rögnu Róbertsdóttur birtast okkur hljóðlát og yfirveguð. Ef nánar er að gáð er efniviður þeirra þó afrakstur  sterkra náttúruafla, eldvirkni jarðar og niðurbrots sjávar.

Rintaro Hara frá Japan sækir innblástur sinn í japanska sagnahefð. Viðfangsefni hans fjalla oft um samtal og tungumál. Samtal kynslóðanna, menningarheima og misskilningsins sem virðist svo oft óhjákvæmilegur.

Ryuji Nakamura, arkitekt og myndlistarmaður frá Japan vinnur innsetningar sem taka oft allt rýmið. Þær eru jafnvel svo stórar að það er útilokað að fá yfirsýn yfir þær frá einu sjónarhorni. Þrátt fyrir stærðina og umfang verkanna er naumhyggjan alls ráðandi í verkum hans.

Tomas Saraceno frá Argentínu sækir innblástur víða, til lista- og vísindamanna, lífs og liðinna, vísindaskáldsagna og síðast en ekki síst til jarðarinnar og þeirra krafta sem móta lífið og umhverfið. Eitt af því sem einkennir  hann er áhugi hans á þeim kerfum og mynstrum sem hreyfa við og mynda heiminn. Allt frá þeim smæstu í lífríkinu til þeirra ógnarstóru eðlisfræðilegu krafta sem móta alheiminn.

Dagskrá:

Laugardag 11. október kl. 15
Sýningarstjóra- og listamannaspjall: Ingibjörg Jónsdóttir og Rintaro Hara spjalla við gesti um sýninguna.

Fimmtudag 13. nóvember og föstudag 14. nóvember 
Námskeið fyrir unglinga þar sem unnar verða þrívíðar innsetningar í tengslum við sýninguna..

Myndir af sýningu

Ítarefni