Murr

Teikning eftir Jóhann S. Vilhjálmsson í dökk rauðum og gráum lit.

Murr

Hafnarhús

-

Murr er s‎ýning á verkum íslenskra samtímalistamanna þar sem sjónum er beint að áráttukenndum vinnuaðferðum í myndlist; endurtekningum, reglum og ofureinbeitingu.

Á sýningunni verða ný og nýleg verk eftir fjölbreyttan hóp listamanna. Verkin endurspegla mikla breidd í inntaki, þar sem glímt er sjálfsævisöguleg viðfangsefni, djúpstæðan sársauka og dauða, samhliða ljóðrænu hversdagsins, endurtekningum og ryðma í daglegum rútínum, óhlutbundnum formum og kerfum. Verkin eru unnin í fjölbreytta miðla; málverk, skúlptúrar, teikningar, vídeóverk og gjörningar.

Á sýningunni Murr er velt upp spurningum um hvað fái listamenn til að vinna endurtekið að sama viðfangsefninu, oft með svipuðum hætti? Hvað fær listamenn til að setja sér reglur og fylgja þeim eftir í þaula, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár.

Í samhengi listarinnar má oft finna hegðun og hugmyndir sem dagsdaglega myndu teljast fráleitar eða undarlegar. Út frá sjónarhorni sköpunar hafa listamenn frelsi til að kanna mörk mannlegs ástands og mannlegrar getu og nálgast út frá forsendum listarinnar. Það er því engin furða að stundum sé litið á list og áráttu sem tvær hliðar á sama peningi, í báðum tilfellum er um að ræða frávik frá því sem við teljum eðlilega mannlega hegðun og einnig frávik frá því sem við teljum mannshugann eða líkamann færan um.

Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru:

Ásgrímur Þórhallsson, Bjarni H. Þórarinsson, Deepa R. Iyengar, Halla Birgisdóttir, Jóhann S. Vilhjálmsson, Kjartan Ari Pétursson, Margrét M. Norðdahl, Marta Valgeirsdóttir, Sigurður Ámundason, Sigtryggur Berg Sigmarsson, Styrmir Örn Guðmundsson.

Sýningarstjóri er Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

Viðburðir

Leiðsögn sýningarstjóra

23. júní 2024, 15:00 til 16:00
Sjá meira

Myndir frá opnun