Hafnarhús
-
Monika Grzymala vinnur sýningu í A-sal Hafnarhúss þar sem mætast á einstæðan hátt listrænt inngrip í arkitektúr safnsins og teikning eða umfangsmikið línuspil sem unnið er úr lituðu límbandi. Innsetning Grzymala í Hafnarhúsi ber yfirskriftina Hugboð og er persónulegt viðbragð listakonunnar við rými safnsins, innblásið af ljóðinu Envoi eftir mexíkóska rithöfundinn Octavio Paz.
Monika Grzymala lýsir verkum sínum sem rýmisteikningum en hún hefur þróað einstaka aðferð við að vinna þrívíðar teikningar. Til verksins nýtir hún marga kílómetra af límbandi sem hún teygir um rýmið og handgerðan áferðarmikinn pappír.
Verk hennar eru kraftmikið inngrip í rými um leið og í þeim felst hverfulleiki einnota efniviðar.
Titill ljóðs Octavio Paz hefur margræða vísan bæði til huglægra skilaboða og sendinga sem í bókstaflegri merkingu fara á milli staða. Ljóðið lýsir því hvernig fjórir veggir mynda ramma og um leið höft hugsunar. Grzymala sendir skilaboð sem byggjast bæði á upplifun hennar af umhverfinu og orðum skáldsins. Eins og í ljóðinu vísar hún í höfuðáttirnar og tengir inntak ljóðsins við vinnuferli listamannsins, tilvitnanir í eldri verk, speglanir í rýminu og efniskennd. Envoi
Fanginn innan fjögurra veggja
(í norðri er kristall and-vitneskjunnar
landslag sem á eftir að skapa
í suðri, íhugult minni
í austri, spegillinn
í vestri, steinninn og söngur þagnarinnar)
skrifaði ég skilaboð, en fékk ekkert svar
(Octavio Paz / Þýðing: Uggi Jónsson)
Monika Grzymala fæddist í Póllandi árið 1970 en hefur frá barnsaldri búið í Þýskalandi.
Hún nam höggmyndalist og forvörslu en hefur undafarinn áratug vakið athygli fyrir rýmisteikningar sínar. Verk hennar hafa verið sýnd í virtum sýningasölum beggja vegna Atlantshafs þar á meðal í MOMA í New York, í Judd Foundation í Marfa í Texas og Theseus Temle í Vínarborg. Hún hefur einnig haldið fyrirlestra um verk sín og hugmyndir um þrívíðar teikningar í rými. Monika Grzymala býr nú og starfar í Berlín.
Sýningarstjóri er Ingibjörg Jónsdóttir..