
Kjarvalsstaðir
-
Kviksjá: Íslensk myndlist á 20. öld veitir innsýn í íslenska myndlist á 20. öld í gegnum þann hluta menningararfsins sem varðveittur er í Listasafni Reykjavíkur.
Sýningin er haldin í tilefni af því að í ár eru 50 ár eru liðin frá vígslu Kjarvalsstaða. Safnið er í eigu Reykjavíkurborgar og þar með allra borgarbúa. Nú gefst möguleiki á að kynna sér hver þessi sameign okkar er.
Á sýningunni er að finna um tvöhundruð listaverk úr safneigninni frá 20. öld og skiptist hún á milli Austur- og Vestursala á árinu 1973, þegar Kjarvalsstaðir voru vígðir. Um leið markar árið ákveðin straumhvörf í listasögunni hér á landi því þá eru að verða skil á milli línulegrar framvindu módernismans og margsögu framúrstefnutímabilsins. Á sýningunni eru verk eftir marga af fremstu listamönnum þjóðarinnar, verk sem eru vel kunn, en einnig fjölmörg verk sem sjaldan hafa verið sýnd og munu koma mörgum á óvart.


Kviksjá (e.kaleidoscope) er tæki sem brýtur upp hefðbundið sjónsvið og gefur kost á því að njóta þess að skoða veruleikann í brotakenndu mynstri. Safneign í listasafni má segja að lúti sömu lögmálum. Aldrei gefst kostur á að skoða safnið nema að hluta í ólíkum samsetningum og nýju samhengi. Um leið er safneignin ekki nema brotakennt úrval af listsköpun á hverjum tíma og sýn manna á verkin lituð ríkjandi tíðaranda hverju sinni.

Þegar Kjarvalsstaðir voru vígðir fyrir 50 árum varð til formleg umgjörð utanum sýningahald og listaverkaeign Reykjavíkurborgar. Stofn safnkostsins samanstendur meðal annars af verkum sem Jóhannes S. Kjarval ánafnaði borginni, verkum sem borgin og stofnanir hennar höfðu eignast og gjöfum frá velunnurum. Safnkosturinn hefur vaxið æ síðan með reglulegum innkaupum verka og veglegum gjöfum og heldur áfram að dafna á hverju ári.
Hvaða listaverk eru þetta og eftir hverja?
Hvernig urðu þau hluti af safninu?
Hvaða sögu segja þau og hvernig endurspegla þau fortíð okkar og samtíma?



Sýningarstjórar
Edda Halldórsdóttir, Markús Þór Andrésson og Ólöf K. Sigurðardóttir
Umfjöllun fjölmiðla
Umfjöllun fjölmiðla (pdf)
Boðskort
Sýningarskrá JPG