Kvika. Íslensk samtíma­hönnun

Kvika. Íslensk samtímahönnun

Kvika. Íslensk samtímahönnun

Kjarvalsstaðir

-

Magma/Kvika er ein viðamesta sýning sem sett hefur verið upp á íslenskri samtímahönnun og spannar svið hennar ótal víddir listgreinarinnar, svo sem húsgögn, fatnað, ljós, skartgripi, byggingarlist, vefnað, tækninýjungar og matargerð.

Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á mikilvægi hönnunar í okkar nánasta umhverfi og vekja fólk til meðvitundar um margslungnar birtingamyndir hennar. Án þess að við gerum okkur alltaf grein fyrir því þá snertir hönnun okkur öll á ólíkan máta og mótun og gerð hluta á sér oft langa og merkilega sögu sem ekki er skráð utan á þá. Á sýningunni er gerð tilraun til að endurspegla þessa þætti með því að setja þá í samhengi við það sem ber hæst í íslenskri hönnun í dag.

Heiti sýningarinnar, Magma/Kvika, vísar til þess kraumandi sköpunarkrafts sem einkennir stöðu íslenskrar hönnunar út frá hugmyndafræðilegu og efnislegu sjónarhorni.

Um 80 framsæknir íslenskir hönnuðirtaka þátt í sýningunni en þar eru auk þess kynnt nýsköpunarverkefni fimm hönnuða, sem gerð eru sérstaklega fyrir hana. Þessir hönnuðir eru Ninna Þórarinsdóttir, Páll Einarsson, Sigríður Heimisdóttir, Unnur Friðriksdóttir og Þórunn Árnadóttir og spanna verk þeirra allt frá gólfofni til ljósakjóls. Sýningunni er fylgt úr hlaði með vandaðri bók um íslenska samtímahönnun og efnt verður til fræðslu- og fyrirlestradagskrár á sýningartímabilinu.

Sýningarstjóri er Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður, sem vann m.a. til Sjónlistaverðlaunanna fyrir hönnun á síðasta ári. Guðrún Lilja hefur haldið sýningar hér á landi og erlendis og verk hennar hafa birst í öllum helstu alþjóðlegum tímaritum sem fjalla um hönnun og listir og einnig í nokkrum bókum.

Guðrún Lilja var meðal annars tilnefnd ein af tíu helstu vonarstjörnum hönnunar í listatímaritinu Art Review í árslok 2005.

Í Norðursalnum er sýningin Kveikja sem er helguð hönnun, með áherslu á fræðslu henni tengdri. Hönnun er hluti af ferli sem oft kviknar af þörf en leiðir síðan til óvæntrar sköpunar. Í Norðursal er gestum safnsins boðið að vinna með áður þekktan nytjahlut og nýta í eigin sköpun..

Myndir af sýningu