
-
Vestursalur
Á sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttir í Vestursal Kjarvalsstaða öðlumst við einstaka sýn á mannlega tilveru og tilfinningalíf.
Kristín er einn afkastamesti og ástsælasti listamaður samtímans sem á að baki fjölmargar viðamiklar sýningar og verk víða í opinberri eigu.
Kristín Gunnlaugsdóttir hefur vakið athygli fyrir að vera óhrædd við að brjóta upp myndmál sitt og aðferðir. Hún sækir í aldagamlar hefðir íkonamálunar og skapar fígúratíf málverk sem byggjast á margslungnu táknkerfi. Þá vinnur hún abstraktverk sem kallast á við tjáningarmáta módernismans, sem og vandlega útfærð útsaumsverk sem byggja á skjótunnum skissum - svo nokkur dæmi séu tekin. Á sýningunni fæst gott yfirlit yfir feril listakonunnar um leið og þar má sjá ný og óvænt verk sem sérstaklega eru unnin að þessu tilefni.
Í verkum sínum miðlar Kristín tilfinningum, almennri og persónulegri reynslu. Grunnurinn að listsköpun hennar liggur í ótæmandi áhuga á mannslíkamanum. Líkaminn birtist ekki sem hlutlaust form heldur sem lifandi farvegur tilfinninga, sjálfsmyndar og andlegrar leitar. Hún er meistari í að fanga augnablik kyrrðar og berskjöldunar, þar sem líkamar – einkum kvenlíkamar – birtast í huglægu rými, upphöfnu, draumkenndu, kómísku eða hversdagslegu. Í gegnum myndir hennar má skynja hvernig hún nálgaðist viðfangsefnið með virðingu, forvitni og næmni fyrir því hvernig líkaminn og myndmálið geta tjáð það sem ekki verður sagt með orðum. Sérvaldar vísbendingar fylgja með, stelling, hlutur, litur eða áferð, sem styðja áhorfendur í að nema hið ósagða.


Kristín Gunnlaugsdóttir er fædd 1963 og nam myndlist í Myndlistarskólanum á Akureyri og Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1983-88. Þá fór hún utan og lagði stund á íkonamálun í Fransescane Missionarie di María klaustrinu í Róm og þá tók við listnám við Ríkisakademíuna í Flórens á Ítalíu árin 1987-93. Kristín er níundi listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi. Hvert og eitt þeirra er valið með tilliti til einstaks framlags þeirra og sérhæfingar á sínu sviði, bæði hvað viðvíkur miðlum, aðferðum og viðfangsefnum. Slík stöðutaka á sér stað í framsetningu lykilverka frá ólíkum tímum í Vestursal Kjarvalsstaða og útgáfu sýningarskrár þar sem fjallað um ferilinn í samhengi listasögunnar og samtímans.


Sýningarstjóri
Markús Þór Andrésson
Kynningarmynd
Ósagt V, 2025, glimmer á striga.
Fjölmiðlaumfjöllun
Fjölmiðlar (pdf)
Listamenn