Kjarval – lykil­verk

Jóhannes S. Kjarval, Skjaldbreiður (í Grafningi), 1962, olía á léreft, 204x154 cm.

Kjarval – lykilverk

Kjarvalsstaðir

-

Á sýningunni gefst gott tækifæri til að kynnast mörgum lykilverkum frá ferli listamannsins og fá innsýn í þau meginstef sem voru uppistaðan í lífsverki hans. Annars vegar landið í öllum sínum fjölbreytileika og hins vegar það líf og þær táknmyndir sem Kjarval skynjaði í landinu, það sem hugurinn nemur ekki síður en það sem augað sér. 

Kjarvalsstaðir eru vettvangur þar sem list Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals hefur verið kynnt með ýmsu móti frá því húsið var opnað árið 1973. Á þessum árum hafa verið gerðar margvíslegar rannsóknir á list hans og veigamiklum hlut hans í íslenskri listasögu.

Fjölmörg listaverka Kjarvals eru vel þekkt en ætíð er tækifæri til að endurnýja kynnin útfrá nýjum viðhorfum og því ólíka samhengi sem tímans rás færir verkunum.

Viðhorf manna til listar taka breytingum jafnframt því sem umfjöllunarefni Kjarvals hljóta stöðugt nýtt vægi í samhengi hvers tíma. Sem dæmi má nefna túlkun hans á íslenskri náttúru og þá næmu náttúruskynjun sem lesa má úr verkunum. Upplifun manna af túlkun hans á landinu hlýtur að vera háð ólíku virði þess í huga hvers og eins. Er virðið fólgið í fegurðinni fegurðarinnar vegna, í duldu lífi sem í henni býr, í möguleikum okkar á að nýta náttúruna eða í þeim hverfulleika sem mörgum finnst blasa við nú á tímum loftslagsbreytinga? Hver og einn upplifir verkin á eigin forsendum útfrá ríkjandi tíðaranda og persónulegri sýn..

Ítarefni

Sýningarstjóri/-ar

Ólöf K. Sigurðardóttir

Listamenn