Katrín Sigurð­ar­dóttir: Undir­staða

Katrín Sigurðardóttir: Undirstaða

Katrín Sigurðardóttir: Undirstaða

Hafnarhús

-

Sýning á verkinu Undirstöðu eftir Katrínu Sigurðardóttur en verkið var opinbert framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins árið 2013. Undirstaða er stór innsetning í A-sal Hafnarhússins sem nær út í port hússins. Verkið hefur útlínur hefðbundins garðskála frá 18.

öld og samanstendur af upphækkuðu gólfi sem brýst í gegnum veggi og súlur sýningarrýmisins. Handgerðar flísar mynda skrautlegt mynstur í barokkstíl og er sýningargestum boðið að ganga á gólfinu og upplifa þannig verkið undir fótum sér. Undirstaða er hugsuð sem þríleikur innsetninga. Fyrsta gerð verksins var sýnd í Palazzo Zenobio í Feneyjum þar sem verkið skaraðist við veggi gamals þvottahúss. Í Reykjavík er sýningin í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, A- sal, sem upphaflega var vörugeymsla.

Að lokum verður verkið sýnt í í risastóru rými í SculptureCenter í New York sem áður var viðgerðarverkstæði fyrir járnbrautavagna.

Með hinni sögulegu tilvísun beinir Undirstaða athygli að fyrra hlutverki sýningarstaðanna og á hverjum stað munu hinir gömlu veggir leggja sitt til mótunar verksins – teikna upp ný mynstur. Saga verksins, skörunin við þrjár ólíkar byggingar í þremur löndum myndar þannig viljandi andsvar við barrokkgólfið sem líta má á sem eins konar ævintýri.

Þetta er þriðja einkasýning listakonunnar í Listasafni Reykjavíkur. Katrín útskýrir: „Þær sýningar sem ég hef sett upp í Listasafni Reykjavíkur hafa allar snúist um að fara í gegnum veggi. Árið 2000 bjó ég til glugga/spegla sem veittu nokkurskonar útsýni yfir nágrenni safnsins. Árið 2004 byggði ég 100 metra vegg sem hlykkjaðist milli sýningarsala og núna þetta risagólf sem sker húsið. Það er líklega ekki tilviljun að ég vinn mig út úr takmörkunum veggjanna þar sem safnið er órjúfanlegur hluti af landslagi hverfis míns, en ég ólst upp í Hlíðunum rétt við Kjarvalsstaði. Heimur minn takmarkast ekki við stofnunina heldur nær út fyrir það, þangað sem líf safnsins og borgarinnar renna saman í eitt.”

Katrín Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík árið 1967. Í tvo áratugi hefur hún rannsakað hvernig byggingar og landamæri móta skynjun okkar á raunveruleikanum. Með því að breyta hlutföllum óvænt, auk þess að nota arkitektúr á persónulegan hátt og styðjast við kortagerð og landslag, hafa innsetningar hennar knúið áhorfendur til að skoða veröldina í kringum sig frá öðru sjónarhorni.

Katrín hefur meðal annars haldið einkasýningar í Metropolitan Museum of Art í New York (2010), MoMA PS1 í New York (2006), FRAC Bourgogne, Dijon í Frakklandi (2006), Sala Siqueiros í Mexíkóborg (2005) og í Fondazione Sandretto, Turin á Ítalíu (2004). Á döfinni eru sýningar í MIT List Visual Arts Center í Boston (2015) og í Parasol Unit Foundation for Contemporary Art í London (2015). Sýningin er skipulögð af Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Sýningarstjórar voru Ilaria Bonacossa, safnstjóri Villa Croce, Museo D'Arte Contemporanea, Genóa á Ítalíu og Mary Ceruti, safnstjóri SculptureCenter í New York. Samhliða sýningunni gefa Listasafn Reykjavíkur og Marsilio Editori í Feneyjum út 128 síðna sýningarskrá. Í skránni eru textar á ensku, íslensku og ítölsku eftir Hafþór Yngvason, forstöðumann Listasafns Reykjavíkur, Katrínu Jakobsdóttur, fv. menntamálaráðherra, Dorotheé Kirch skipuleggjanda, höfundana Evu Heisler og Kristínu Ómarsdóttur, auk þeirra Ilaria Bonacossa, Mary Ceruti og Katrínar Sigurðardóttur. Feneyjatvíæringurinn
Alls tóku 80 ríki þátt í Feneyjatvíæringnum á síðasta ári. Íslenski sýningarskálinn var opnaður í 21. skipti en þátttaka Íslendinga í tvíæringnum er stærsta og metnaðarfyllsta verkefnið á sviði sjónlista hér á landi sem nýtur stuðnings hins opinbera. Af sýningunum spinnst ávallt lífleg umræða um nýjustu strauma í listinni. Fólk fer til Feneyja til að skoða það sem efst er á baugi, til að taka stöðuna og bera saman bækur sínar. Á síðustu árum hefur framlag Íslands verið sett upp á nýjan leik hér á landi eftir að sýningunni lýkur í Feneyjum og vekur sá viðburður ætíð mikla eftirvæntingu..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Ilaria Bonacossa, Mary Ceruti

Listamenn

Boðskort

Sýningarskrá JPG