Jóhannes S. Kjar­val: Að utan

Jóhannes S. Kjarval: Að utan

Jóhannes S. Kjarval: Að utan

Kjarvalsstaðir

-

Á sýningunni eru verk sem Jóhannes S. Kjarval vann á árunum 1911 til 1928 og eiga það sameiginlegt að vera öll gerð utan landsteina Íslands. Sýnd eru málverk og teikningar sem sjaldan koma fyrir almenningssjónir og gefa innsýn í mótunarár Kjarvals og áhrifavalda þessa mikilsvirta málara sem þekktastur er fyrir túlkun sína á íslenskri náttúru.

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar og málverk hans og túlkun á náttúru Íslands skipa stóran sess í menningar- og listasögu landsins.

Hraun, mosi, ár og fjöll víðs vegar um landið voru honum sífelld uppspretta nýrra verka og talað er um að hann hafi beint sjónum landsmanna að nýjum hliðum íslenskrar náttúru. Þrátt fyrir þau órofa tengsl sem Kjarval hefur við náttúru landsins ferðaðist hann einnig víða um lönd og vann verk á erlendri grundu. Hann stundaði nám í Danmörku og dvaldi um hríð í London, á Ítalíu og í Frakklandi. Hann lagði mikið upp úr því að kynnast lykilverkum í alþjóðlegri menningarsögu af eigin raun og kynna sér nýjustu hræringar í samtímalist.

Árið 1911 rættist langþráður draumur þegar Kjarval hélt í sína fyrstu för til útlanda og lá leiðin til London. Hann hafði um árabil barist fyrir því að komast utan til náms en aldrei haft ráð á.

Félagar í Ungmennafélagi Reykjavíkur hlupu undir bagga með honum og héldu happdrætti þar sem eitt málverka Kjarvals var í vinning. Tekjurnar af happdrættinu runnu í ferðasjóð fyrir hann. Í viðtali komst Kjarval svo að orði um utanförina:

„En daginn sem jeg fékk 800 krónurnar fór jeg um borð í togara og sigldi beina leið til London. Jeg gat ekki hugsað mjer að heimsækja minni borg, þegar jeg loksins komst af stað.“ 

Dvölin í London varði í um þrjá mánuði og hafði mikil áhrif á Kjarval og listsköpun hans. Hann varð fyrir miklum innblæstri, sótti söfn, las mikið og kynntist því sem var efst á baugi í stórborginni.

Frá London hélt Kjarval til Kaupmannahafnar og var þar búsettur fram til ársins 1922. Hann stundaði nám í Det Tekniske Selskabs Skole og Konunglega listaháskólanum og hlaut þar þá faglegu listmenntun sem hann hafði lengi óskað sér.

Í Danmörku vann Kjarval mörg af sínum þekktari verkum, svo sem Íslenskir listamenn við skilningstréið og Skógarhöllina, sem bæði eru í safneign Listasafns Íslands, auk ýmissa verka af dönskum gróðri, skógum og strætum.

Árið 1920 fékk Kjarval styrk á fjárlögum til Rómarferðar og hélt þangað ásamt Tove konu sinni á vordögum og ferðaðist um Ítalíu fram á haust. Auk Rómar heimsótti hann meðal annars borgirnar Flórens, Tivoli, Amalfi og Ravello. Hann vann mikið á Ítalíu og kom aftur til Kaupmannahafnar með fjölda verka, aðallega vatnslita- og pensilteikningar. Kjarval skrifaði Einar Jónssyni, kollega sínum og félaga, bréf frá Róm þar sem hann sagði að þrennt hefði heillað sig: Málverk eftir Tizian, veggmálvek Michelangelos af dómsdegi í Sistínsku kapellunni og rómversku rústirnar.

Verkin sem Kjarval vann á Ítalíu og eftir að þaðan var komið bera ferðinni skýr merki en frá þeim tíma eru verkin Divina Comedia og Pantheon auk þess sem hann vann margar myndir af ítölsku borgarlandslagi og mannamyndir.

Kjarval flutti til Íslands árið 1922 en í janúar 1928 fór hann í langþráða ferð til Frakklands og var þar í tæpt hálft ár. Hann hafði vinnustofu í París og dvaldi einnig í Fontainbleau skógi utan við borgina. Þar vann Kjarval röð franskra skógarmynda. Hann er sagður hafa málað fimmtán myndir í Frakklandi og komið með fjórtán þeirra til Íslands.

Ári eftir Frakklandsdvölina urðu kaflaskil í list Kjarvals þegar hann ákvað að leggja íslenskt landslag fyrir sig og leggjast út við iðju sína „við vernd alnáttúru“ eins og hann komst sjálfur að orði. Verkin á sýningunni eru því öll gerð fyrir 1929, á fyrri hluta ferilsins, og varpa nýju ljósi á mótunarár Kjarvals og áhrifavalda. Á sýningunni eru verk frá þeim stöðum utan landsteinanna þar sem Kjarval dvaldi hvað lengst og málaði mikið; London, Danmörk, Ítalía og Frakkland..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Edda Halldórsdóttir

Listamenn

Boðskort