Ásmundarsafn
-
Sýning á verkum Jóhanns Eyfells í Ásmundarsafni. Sýningin er sú þriðja í röð einkasýninga fimm listamanna sem eru höfundar listaverka í borginni. Jóhann Eyfells er fæddur árið 1923.
Hann lagði fyrst stund á arkitektúr og útskrifaðist af því sviði árið 1953. Árið 1964 útskrifaðist hann með meistaragráðu í myndlist. Árið 1969 var hann ráðinn sem prófessor í skúlptúr við University of Central Florida. Hann hefur æ síðan verið búsettur í Bandaríkjunum, lengst af í Florída. Jóhann hefur notið umtalsverðrar virðingar fyrir verk sín og vinnubrögð.
Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1993 ásamt Hreini Friðfinnssyni. Hann byrjaði snemma á sjötta áratugnum að skapa abstrakt skúlptúra sem byggðust á tilraunum í eðlis- og efnafræði og sérstaklega umbreytingu málma við steypu. Tilraunir leiddu Jóhann að stíl sem hann kallar „receptúalisma“ en þar renna að hans sögn þrjú kerfi í eitt: Vísindi, heimspeki og dulhyggja.
Listamennirnir sem sýna í Ásmundarsafni á árinu, eftir að sýningu Jóhanns lýkur eru Helgi Gíslason og Ólöf Nordal.
Árið 2019 er ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur og er sýningin liður í því markmiði safnsins að beina sjónum manna að þeim listaverkum sem við njótum sem hluta af daglegu lífi..