Íslensk mynd­list 1900-1950: Frá lands­lagi til abstraktlistar

Íslensk myndlist 1900-1950: Frá landslagi til abstraktlistar

Íslensk myndlist 1900-1950: Frá landslagi til abstraktlistar

Kjarvalsstaðir

-

Sýningin er sögulegt yfirlit íslenskrar myndlistar frá 1900-1950 þar sem yfir tvöhundruð málverk og höggmyndir eftir 40 listamenn eru til sýnis í Vestursal og Kjarvalssal. Verkin á sýningunni koma víða að, frá listasöfnum, stofnunum og einkasöfnum. Mörg verkanna, sem eru afar mikilvæg í íslenskri listasögu, hafa ekki verið sýnd um langt árabil.

Markmið sýningarinnar er að rannsaka og dýpka þekkingu okkar á menningararfinum.

Sýningunni er skipt í fjórar frásagnir og fjögur tímabil: Rómantík og róttækni 1900-1930, Landslag 1930-1950, Maðurinn og umhverfi hans 1930-1950, Ný-róttækni og upphaf abstraktlistar 1940-1950. Sýningarstjóri er Ólafur Kvaran. Þetta tímabil spannar frá list brautryðjendanna í upphafi aldarinnar, þegar rómantísk náttúrutúlkun og sýmbólismi setja sterkan svip á verk þeirra og til nýrra róttækra viðhorfa á þriðja áratugnum eins og kúbisma og abstraktlistar.

Einar Jónsson myndhöggvari sýndi í fyrsta sinn í Kaupmannahöfn árið 1901 höggmyndina Útlaga og Þórarinn B. Þorláksson hélt fyrstu sýningu á landslagsverkum í Reykjavík árið 1900 og árið 1903 sýndi Ásgrímur í fyrsta sinn landslagsmyndir sínar í Reykjavík og efndi jafnframt til sýningar árið 1905, þar sem hann sýndi myndefni úr þjóðsögunum fyrstur íslenska málara. Brautryðjendurnir í upphafi aldarinnar voru, ásamt þeim listamönnum sem fram komu á öðrum áratugnum eins og Jóni Stefánssyni – sem var nemandi Matisse í París 1908-1911 - Jóhannesi Kjarval, Guðmundi Thorsteinssyni, Kristínu Jónsdóttur, Júlíönu Sveinsdóttur og Nínu Sæmundsson, sem öll hlutu listmenntun sína í Kaupmannahöfn jafnframt mjög virkir í dönsku listalífi með þátttöku í sýningum.

Íslensk myndlist var þannig frá upphafi í nánum tengslum við danskt og evrópskt samhengi.

Sem dæmi um þetta má nefna að verk eftir Jón Stefánsson voru valin á sýninguna Dönsk samtímalist árið 1925 og að í París hlaut ungur listamaður Gunnlaugur Blöndal þann heiður að verk eftir hann var valið á sýningu á franskri nútímalist árið 1925 og höggmyndin Móðurást eftir Nínu Sæmundsson hlaut heiðursess á Haustsýningunni í París 1924. Á fyrstu áratugum 20. aldar er jafnframt að mótast borgaralegt menningarsamfélag í Reykjavík, þar sem myndlistin hefur mikilvægt hlutverk. Hinir ungu íslensku listamenn efndu reglulega til sýninga á verkum sínum, líkneski Einars eru reist á fyrsta og öðrum áratugnum í Reykjavík, og þannig gegnir myndlistin mikilvægu hlutverki í mótun þess nýja sjónræna umhverfis sem var að verða til í Reykjavík.

Listavinafélag Íslands var stofnað 1916 og fyrsta sýning þess var haldin 1919, Listasafn Einars Jónssonar var opnað almenningi árið 1923 og fyrstu yfirlitssýningar á íslenskri myndlist eru haldnar erlendis árið 1927-1928 í Danmörku og Þýskalandi. Í þessum kafla sýningarinnar eru sýnd verk eftir eftirtalda listamenn: Ásgrím Jónsson, Brynjólf Þórðarson, Einar Jónsson, Einar Jónsson frá Fossi, Eyjólf Eyfells, Finn Jónsson, Guðmund Thorsteinsson, Gunnlaug Blöndal, Jóhannes Kjarval, Jón Stefánsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Kristínu Jónsdóttur, Kristínu Þorvaldsdóttir, Kristínu Þorláksdóttir Bernhöft, Nínu Sæmundsson og Þórarin B. Þorláksson. Alþingishátíðarinnar 1930, varpa ljósi á stöðu myndlistarinnar og þá miklu grósku sem var í listalífinu.

Á opinberu sýningunni, sem stjórnvöld báru ábyrgð á, voru 250 verk eftir 16 listamenn og á sýningu Félags óháðra listamanna sýndu 15 listamenn hátt í tvö hundruð verk alls. Eins og þessar sýningar báru með sér var margt að gerjast í myndlistinni og í umræðunni um innlent og útlent eða þjóðlegt og óþjóðlegt birtast þær hugmyndalegu andstæður sem voru að vaxa fram í íslenskri menningu. Í hinni þjóðernislegu orðræðu í upphafi aldarinnar um landslagsmálverkið var lögð sterk áhersla á það hlutverk þess að kenna íslensku þjóðinni að meta náttúru Íslands og um leið að efla ættjarðarást landa sinna og þannig verður landslagið öðru fremur tákn um hið þjóðlega í myndlistinni. Landslagið var ráðandi viðfangsefni myndlistarmanna í upphafi aldarinnar og um 1930 hefst nýtt blómaskeið fjölbreyttrar landslagslistar, þar sem persónuleg túlkun listamanna hefur ólíkar listsögulegar tilvísanir.

Kjarval byrjar að mála á Þingvöllum um 1930 með vísan í expressjóniska hefð, þar sem hann með nýju sjónarhorni á myndefnið skapar nálægðina í náttúrunni, jafnframt sem hann túlkar sama myndefnið aftur og aftur með breytilegum áherslum og sjónarhornum. Jón Stefánsson vísar í túlkun sinni í klassíska hefð með áherslu á hið kyrrstæða og formfasta í víðáttu landslagsins og Ásgrímur Jónsson fjallaði um landslagið í anda impressjónismans, sem öðru fremur túlkandi birtunnar sem umleikur myndefnið hvort sem hann málar með olíulitum eða vatnslit. Aðrir listamenn tímabilsins könnuðu m.a. ný landsvæði íslenskrar náttúru eins og Guðmundur frá Miðdal og Finnur Jónsson, sem fóru í leiðangra um hálendið og túlkun þeirra er mjög frábrugðin hinni rómantísku og upphöfnu sýn á náttúruna og í verkum Júlíönu Sveinsdóttur birtist sterk ljóðræn tilfinning, þegar hún túlkar hin andstæðu náttúruöfl landið og hafið.

Í þessum kafla sýningarinnar eru sýnd verk eftir: Ásgrím Jónsson, Finn Jónsson, Gunnlaug Blöndal, Jóhannes Kjarval, Jón Stefánsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Kristínu Jónsdóttur, Jón Þorleifsson, Kristján Magnússon, Svein Þórarinsson, Tryggva Magnússon, Kristin Pétursson, Guðmundur Einarsson, Eggert Laxdal og Freymóð Jóhannesson og Ásgeir Bjarnþórsson. Um 1930 urðu ákveðin þáttaskil í íslenskri listasögu þegar ný kynslóð listamanna kom fram á sjónarsviðið með Gunnlaug Scheving, Sigurjón Ólafsson, Ásmund Sveinsson, Snorra Arinbjarnar, Jón Engilberts, Þorvald Skúlason og Jóhann Briem í broddi fylkingar sem tengdust róttækum viðhorfum í evrópskri myndlist.

Á sama tíma og íslenskir myndlistarmenn túlkuðu landið í landslagsverkum sínum þá fjallaði hin nýja kynslóð öðru fremur um mannfólkið og daglegt umhverfi þess á fjórða og fimmta áratugnum. Fjórði áratugurinn var tími mikillar efnahagskreppu og pólitískra átaka og myndlistin er margbreytileg með tilvísunum bæði í þjóðernislegan merkingarheim og róttæka samtímalist. Listamenn túlkuðu þennan nýja veruleika, hið hversdagslega mannlíf og margir tileinkuðu sér huglægari og róttækari túlkun eins og síð-kúbisma og expressjónisma. Í umræðunni um innlent og útlent, þjóðlegt og óþjóðlegt birtast hugmyndalegar andstæður sem voru að mótast á þessum árum.

Þessar ólíku hugmyndir um hlutverk myndlistarinnar og þá ekki síst um gildi myndefnisins, birtast m.a. með áþreifanlegum hætti, þegar Jónas Jónsson þá formaður Menntamálaráðs efndi til í háðungarsýningar vorið 1942 á verkum þeirra Jóns Stefánssonar, Jóns Engilberts, Gunnlaugs Scheving, Þorvaldar Skúlasonar og Jóhanns Briem. Í þessum kafla sýningarinnar eru sýnd verk eftir: Gunnlaug Scheving, Sigurjón Ólafsson, Ásmund Sveinsson, Snorra Arinbjarnar, Jón Engilberts, Þorvald Skúlason, Jóhann Briem, Finn Jónsson, Jón Þorleifsson, Gunnlaug Blöndal, Nínu Tryggvadóttur og Louísu Matthíasdóttur.

Síðla sumars árið 1945 hélt Svavar Guðnason sýningu í Reykjavík á abstraktverkum, sem markaði upphaf samfelldrar sögu abstraktlistar í íslenskri listasögu. Svavar hafði um árabil verið búsettur í Danmörku og var einn af leiðandi abstraktmálurum í danskri myndlist. Hlutverk listarinnar var nú ekki lengur að túlka eða fjalla um hinn sýnilega veruleika með beinum hætti heldur fólst hið listræna í abstrakt formum og litum. Með tilkomu Septembersýninganna í lok fimmta áratugarins varð til í íslenskri myndlist breiðfylking eldri og yngri kynslóðar listamanna, sem voru nýkomnir frá námi í Bandaríkjunum. Þar settu listamenn eins og Valtýr Pétursson, Kjartan Guðjónsson, Jóhannes Jóhannesson, Nína Tryggvadóttir og Kristján Davíðsson fram þann skilning að listin eigi ekki að túlka veruleikann heldur sé listaverkið sjálfstæður heimur sem lyti sínum eigin lögmálum.

Samkvæmt hugmyndum þeirra, sem stóðu að Septembersýningunum hefur hið listræna ávallt falist í formi listaverksins en ekki myndefninu og þess vegna skal listamaðurinn svo og áhorfandinn einbeita sér að hinu formræna gildi verksins. Þá var líka lögð rík áhersla á hlutverk listarinnar sem vegvísis til frjáls hugmyndaflugs og sjálfsprottinnar tjáningar. Með tilkomu abstraktlistarinnar á fimmta áratugnum varð til ný orðræða um markmið og hlutverk myndlistarinnar, sem markaði djúp spor í íslenskri listasögu á næsta áratug.

Í þessum hluta sýningarinnar eru verk eftir: Svavar Guðnason, Ásmund Sveinsson, Þorvald Skúlason, Valtý Pétursson, Kjartan Guðjónsson, Jóhannes Jóhannesson, Nínu Tryggvadóttur, Kristján Davíðsson og Sigurjón Ólafsson. Ólafur Kvaran Umfjöllun: Fréttir RÚV 10. júní 2013. Ómetanleg íslensk myndlist í hálfa öld. Dagskrá Leiðsögn á ensku alla föstudaga kl. 11 í júní, júlí og ágúst. Sunnudag 9. júní kl. 15 Sýningarstjóraspjall – Ólafur Kvaran leiðir gesti um sýninguna. Sunnudag 23. júní kl. 15 Fjölskylduleiðsögn og smiðja um sýninguna. Frekari viðburðadagskrá fer fram í september..

Myndir af sýningu