Ísland öðrum augum litið

Ísland öðrum augum litið

Ísland öðrum augum litið

Hafnarhús

-

Samsýning um íslenskt menningarlandslag. Íslendingar hafa búið í landi sínu í rúm ellefu hundruð ár, og lært að lifa með því í blíðu og stríðu í gegnum aldirnar. En það er ekki aðeins að landnámsmenn hafi þurft að breyta háttum sínum frá því sem áður var til að lifa á landinu, heldur hefur landið ekki síður tekið breytingum frá því ástandi sem ríkti í “mannlausu landi", til að þola ábúðina; land og þjóð hafa þurft að laga sig hvort að öðru.

Í þessari sambúð hefur gengið á ýmsu.

Landið hefur á stundum verið dimmur og drungalegur verustaður, og var til dæmis nær búið að drepa af sér þjóðina í kjölfar harðindanna í lok 18. aldar. Fólkið hefur í gegnum tíðina ekki síður farið fram af grimmd og skeytingarleysi í umgengni sinni við landið; land sem áður var “skógi vaxið milli fjalls og fjöru" er nú víða gróðursnauð eyðimörk, og þar sem áður voru skógar og engjar getur að líta örfoka sanda og mela. Það má því með nokkrum rétti halda því fram að allt landslag í byggð á Íslandi sé öðru fremur mótað af búsetu mannsins í ellefu aldir - að það sé mótað af menningu þjóðarinnar í gegnum tíðina - að það sé menningarlandslag.

Þessi skilgreining á menningarlandslagi kann að hljóma einkennilega við fyrstu kynningu, en virðist engu að síður vera sá grunnur sem liggur að baki því endurmati á tengslum þjóðarinnar við landið sem nú á sér stað. Núlifandi kynslóðir Íslendinga eru sennilega þær fyrstu sem hafa leitt hugann að því með hvaða hætti þjóðin hefur breytt landinu með búsetu sinni, og sem hafa sýnt einhverja viðleitni í verki til að bæta fyrir það sem aflaga hefur farið í gegnum aldirnar.

Landgræðsla, skógrækt, náttúruvernd, umhverfishyggja - allt eru þetta greinar af þeim meiði vitundarvakningar sem er nú að rísa af íslensku menningarlandslagi.

Meðal annars vegna þess með hvaða hætti landslagið hefur þróast hér er landið sérstakt og einkennilegt fyrirbæri í augum hins erlenda ferða- og listamanns. Þetta viðurkenna Íslendingar fúslega, en okkur reynist sjálfum erfitt að koma auga á og skilgreina þessa sérstöðu.

Erlendir fræði- og listamenn hafa komið til landsins frá fyrstu tíð til að skoða það og skilgreina, og í gegnum aldirnar hafa lýsingar þeirra oft verið með þeim hætti að þetta furðuland í norðri fékk á sig blæ ævintýra- og furðuheima. Það var síðan í gegnum myndverk erlendra ferðamanna er komu til landsins á 18. og 19. öld sem sérstaða þessa landslags, náttúru landsins og ekki síst menningar þjóðarinnar fór að koma fram með myndrænum hætti. Þannig má að mörgu leyti þakka ýmsum erlendum gestum er hingað hafa komið að við höfum lært að meta þau listrænu gildi, sem liggja í landinu.

Þessir gestir voru oft fræðimenn knúnir áfram af þorsta eftir vísindalegri þekkingu. Margir þeirra töldu að þetta land elds og ísa væri sem opin bók fyrir jarðvísindin, og leið þeirra lá til Geysis, Heklu, Þingvalla og Snæfellsjökuls. Aðrir ætluðu að hér byggi fólk sem athyglisvert væri að kynna sér, ýmist sem frumstætt og siðlaust í samanburði við siðmenningu Evrópuþjóða, eða sem göfug náttúrubörn, ósnortin af spillingu þeirrar sömu siðmenningar - allt eftir því hvaða skoðanir viðkomandi gestir aðhylltust fyrirfram.

Annan hóp fylltu þeir sem höfðu heillast af þýðingum á íslenskum fornsögum. Þessum ferðalöngum fjölgaði á síðari hluta 19. aldar, og þeir skoðuðu landið einkum út frá því sjónarmiði að hér væri að finna sögusvið stórkostlegra atburða, örlaga og persóna, sem jafna mætti við mestu hetjur grískra harmleikja; þeirra áfangastaðir voru Hlíðarendi og Bergþórshvoll, Þingvellir og aðrar fornar söguslóðir.

Verk þeirra listamanna 19. aldar, sem valin hafa verið á þessa sýningu, endurspegla þessa þætti alla með einhverjum hætti. Ferðasögur þessara gesta okkar hafa verið gefnar út hér á landi og notið mikilla vinsælda, þó landsmenn hafi ef til vill ekki lagt mikið upp úr þeim skoðunum á landi og þjóð sem þar koma fram; myndirnar og sú sýn á landið, sem þeir brugðu upp, hefur átt hug okkar allan. Í þeim mátti oft sjá að þrátt fyrir erfið skilyrði til búskapar og fátækt var ákveðin reisn yfir fólkinu, tign yfir landinu og dulúð sem ferðamennirnir festu á blað.

Á þessari öld hafa listamenn haldið áfram að koma til landsins og þeir verða sífellt fleiri, sem hingað sækja. Nú um stundir lítum við ekki lengur á þessa gesti sem furðu-ferðalanga, og erum farin að veita viðhorfum þeirra og vinnubrögðum eftirtekt. Við höfum nefnilega áttað okkur á að þeir sjá landið oft með öðrum augum en við; hið hversdagslega verður athyglisvert, og hið sjálfsagða verður sérstakt.

Þeir listamenn sem hafa verið valdir til þátttöku í þessari sýningu eiga allir að baki langa tíð á Íslandi og meðal Íslendinga. Þau Roni Horn og Roman Signer hafa bæði komið til Íslands um langt árabil og nýtt reynslu sína af landinu við að skapa myndverk sem hafa vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi.

Ljósmyndaraðir bandarísku listakonunnar Roni Horn af baðlaugum, fjárréttum, veðurbrigðum og landslagi hafa yfir sér einhvern sérstakan, óræðan blæ, sem erfitt er að ímynda sér að geti verið að finna annars staðar en á Íslandi - eða jafnvel annars staðar en í verkum þessarar sérstöku listakonu. Svisslendingurinn Roman Signer hefur framkvæmt margar sínar athyglisverðustu hugmyndir hér á landi, og fest á myndbönd eða gert aðrar heimildir um; í hans verkum er ferðin ekki síður mikilvæg en áfangastaðurinn, og er það verk sem hann vann fyrir þessa sýningu gott dæmi þessa.

Hollendingurinn Douwe Jan Bakker hafði einnig unnið mikið af verkum sínum hér á landi, og var einkum umhugað um með hvaða hætti íslenskt landslag endurspeglaði eitthvað sem kalla mætti persónueinkenni íslensku þjóðarinnar. Fjölmargar myndraðir af íslenskum torfbæjum, tóftum, og fyrirbærum í landinu eru líkt og tilraunir til skilgreiningar á landinu og fólkinu, sem í því býr; eitt vísar í annað.

Það sem stendur Íslendingum sjálfum einna mest fyrir þrifum við að líta á landið sem spegil þeirrar menningar sem hefur þróast með þjóðinni hefur verið sú nálægð sem við eiga við að glíma í þessu samhengi. Glíman við að sjá og lýsa sjálfum sér og sínu nánasta umhverfi á raunsannan hátt, án þess að úr verði klisja, er engan veginn auðunnin.

Meðal þeirra listamanna sem hafa leyst úr þessu verkefni með einstaklega listrænum hætti eru þeir Hörður Ágústsson og Birgir Andrésson ótvírætt í fremstu röð. Hörður hefur verið einn merkasti brautryðjandi meðal fræði- og listamanna hér á landi í að skoða með hvaða hætti Íslendingar hafa byggt í landinu; hvernig þeim hefur tekist að laga sína íverustaði, sín guðshús og aðrar byggingar að staðháttum og þeim efnum, sem buðust.

Í teikningum Harðar birtast ekki aðeins gagnmerkar heimildir um horfnar hefðir, heldur einnig sjálfstæð listaverk, sem vísa til þess með hvaða hætti landið hefur mótað menningu og líf þjóðarinnar í gegnum tíðina. Það var ekki beygt fólk sem reisti þær byggingar sem Hörður hefur kannað og dregið upp, heldur vel menntuð þjóð sem hélt tign sinni, jafnvel á erfiðustu tímum sögu sinnar, og sem staðfestir að Íslendingar hafa í öllum sínum athöfnum verið fullgildur hluti af hinum vestræna menningarheimi.

Birgir Andrésson hefur í verkum sínum einnig unnið mikið út frá menningu þjóðarinnar í gegnum aldirnar, þó með öðrum hætti sé. Verk sem byggja á mannlýsingum úr fornsögum, teikningum af fornum uppgröftum, myndröðum sem fjalla um líf hins venjulega manns sem og hins óvenjulega, vísa öll með einum eða öðrum hætti til þess að menning þjóðarinnar í landinu byggir á allri þjóðinni.

Það er eðlilegt framhald af slíkum verkum að fjalla um með hvaða hætti Íslendingar tengja sig við umheiminn og færa hann heim í þorpið sitt - og með því vekja upp spurninguna um hvort er raunverulegra, íslenska þorpið sem veit af umheiminum eða umheimurinn sem þekkir ekki til þorpsins.

Sýningunni “Ísland öðrum augum litið" er þannig ætlað að vekja upp ýmsar spurningar, sem hver verður að svara fyrir sig. Land, þjóð, menning, list, ferðir, umheimurinn - er hægt að skilgreina eitt án hins, er hægt að ræða um tvo þessara þátta án tilvísunar til allra hinna; er hægt að fjalla um Ísland - í myndlist eða á öðrum vettvangi - án þess að líta á það með nýjum hætti, með öðrum augum en fyrr?.

Myndir af sýningu