Innpökkuð Herbergi

Innpökkuð Herbergi

Innpökkuð Herbergi

Hafnarhús

-

Fígúrur og málverk hins heimskunna, japanska popplistamanns, Yoshitomo Nara (1959) hafa farið sigurför um heiminn undanfarna tvo áratugi. Nara er nú kominn til Íslands og opnar nýja sýningu í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Málverk Nara tengjast mjög japanskri teiknimyndahefð og popplist en umgjörð verkanna er breytileg eftir sýningarstað.

Í Hafnarhúsinu eru verkin sýnd í sérsmíðuðum flutningagámum sem hægt er að skoða inn um opnar hliðar, glugga eða gægjugöt.

Inn í gámunum eru lítil og stór málverk af grallaralegum smástelpum eða furðuverum ásamt þrívíðum verkum, sem minna helst á leikföng. Nara vinnur verk sín í samvinnu við hóp þekktra listamanna og hönnuða sem kalla sig Graf, en á þessari sýningu er í för með honum einn af forkólfum hópsins og aðalsamstarfsmaður Nara, Hideki Toyoshima. Vegleg sýningarskrá er væntanleg um sýningu Nara í Hafnarhúsinu þar sem Guðmundur Oddur, Jón Proppé, Markús Andrésson og Úlfhildur Dagsdóttir skoða listamanninn í ólíku samhengi.

Sýningar Nara höfða til breiðs hóps fólks en líklega er henni best lýst með yfirskrift greinar Úlfhildar: „Lager af ævintýrum”. Sýningin er styrkt af The Japan Foundation. Hún stendur til ársloka.

Á sýningartímabilinu verður boðið upp á fjölskylduleiðsögn og listsmiðju, námskeið fyrir framhaldsskólanema og málþing í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur.

Úr texta eftir Jón Proppé: Myndlist Nara sameinar marga strauma og menningarheima eins og ferill hans gefur líka vísbendingu um. Hann hefur líka verið þátttakandi í ólíkum listheimum í Japan og í Evrópu. Verk hans fjalla jöfnum höndum um klassíska list, poppmenningu og fjöldaframleidda menningu; áhrifin og viðfangsefnin spanna vítt svið og hafa ótrúlega breiða skírskotun sem útskýrir kannski að nokkru vinsældir hans. En þótt sumar myndir Nara hafi náð næstum ótrúlegri útbreiðslu á síðustu árum – einkum hinar léttu en ögrandi barnamyndir hans – er líka í verki hans dökkur þráður sem kannski mætti helst kenna við evrópskt þunglyndi eða efahyggju.

Myndlist hans er þannig langt frá þeirri glöðu popplist sem margar myndirnar vísa kaldhæðnislega í og það er einmitt þetta sem tengir hann órjúfanlega við avant-garde og framúrstefnu: Hin stöðuga endurskoðun og gagnrýni á bæði birtingarmyndir menningarinnar og eigin verk. Með þeirri framsetningu verkanna sem Nara hefur þróað undanfarin ár gerir hann okkur áhorfendur að þátttakendum í þessu ferli..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun