Indian Highway - Skjá­verk í indverskri samtíma­list

Indian Highway - Skjáverk í indverskri samtímalist

Indian Highway - Skjáverk í indverskri samtímalist

Hafnarhús

-

Eiginlegt þema sýningarinnar Indian Highway byggir á mikilvægi hraðbrauta í efnislegum og óefnislegum skilningi. Þær eru forsenda hreyfinga, uppbyggingar og flutninga í landfræðilegu tilliti og hafa í tæknilegu tilliti haft gríðarleg áhrif á öran hagvöxt á Indlandi undanfarna áratugi. Verkin á sýningunni fjalla um almenn viðfangsefni eins og lýðræði, umhverfi, trúarbrögð, kynþætti, kynjahlutverk og stöðu.

Fyrsta Indian Highway sýningin var opnuð í Serpentine Gallery í London í árslok 2008 og ári síðar í Astrup Fearnley samtímalistasafninu í Osló.

Sýningarstjórarnir Julia Peyton-Jones og Hans-Ulrich Obrist, stjórnendur Serpentine Gallery og Gunnar B. Kvaran, stjórnandi Astrup Fearnley safnsins völdu listamenn sem þegar hafa látið að sér kveða á hinum alþjóðlega myndlistarvettvangi og sömuleiðis listamenn sem eru minna þekktir í hinum vestræna heimi.

Með sýningunni vilja þau kynna til sögunnar nýja og þróttmikla kynslóð indverskra listamanna sem vinna í fjölbreytta miðla á borð við málun, ljósmyndun, höggmyndalist, innsetningar, margmiðlun og skjálist. Hugmynd sýningarstjóranna var einnig að sýningin myndi ferðast á milli landa og fá nýtt yfirbragð á hverjum sýningarstað. Sem stendur er ein útfærsla sýningarinnar núna uppi í Herning samtímalistasafninu í Danmörku og mun hún ferðast þaðan til fjölmargra staða m.a. til Delhi á Indlandi.

Sýnd eru skjáverk eftir 25 indverska samtímalistamenn ásamt verki eftir eitt listamannateymi.

Sýningarstjórarnir völdu tíu listamenn til að sýna á sýningu Hafnarhússins en eftirlétu svo einum listamanninum, Shilpa Gupta og listamannateyminu, Raqs Media Collective, að gera nokkurs konar sýningu inn í sýninguna, með því að velja hvoru um sig átta listamenn í þeim tilgangi að krydda sýninguna og fá fram sjónarmið og skoðanir heimamanna á stöðu Indlands í dag..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun