Ilmur Stef­áns­dóttir: Panik

Ilmur Stefánsdóttir: Panik

Ilmur Stefánsdóttir: Panik

Hafnarhús

-

Í A-sal Hafnarhúss ríkir óstöðugleiki og fát. Það hriktir í burðarvirkinu þar sem kona hamast við eitthvað sem ekki hefur augljósan tilgang. Hún hleypur, hoppar, hjólar og notar ýmis torkennileg tæki til að skapa hreyfingu hreyfingarinnar vegna.

Svo virðist sem sýningarsalurinn kunni undan að láta og spurningin er hvort basl konunnar geti haldið honum uppi eða sé orsök þess að hann er við það að bresta. Höfundur innsetningarinnar Panik er myndlistarkonan Ilmur Stefánsdóttir. Ilmur hefur farið ótroðnar slóðir í listsköpun sinni og gjarnan tengt saman gjörninga og hluti eða farartæki sem hún smíðar og notar sjálf eða býður sýningargestum að taka þátt og prófa. Á þessari sýningu eru tækin og tólin nálæg í gegnum myndbandsverk sem virðast samtvinnuð burðarvirki sýningarsalarins; í loftræstikerfinu, inni í súlunum og á salthaugum víða um salinn. Alls staðar hamast þessi kona.

Stökkbreyting hluta og hegðun fólks eru Ilmi hugleikin viðfangsefni. Hér umbreytir hún rýminu sem getur staðið fyrir listheiminn eða önnur kerfi samfélagsins og býður áhorfendum að samsama sig þrotlausri fyrirhöfn konunnar. Ilmur Stefánsdóttir (f. 1969) vinnur jöfnum höndum við myndlist og leikmyndahönnun. Hún lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1995 og framhaldsnámi í myndlist við Goldsmiths College í London árið 2000. Hún hefur haldið fjölda einka- og samsýninga og lagt stund á gjörningalist hérlendis og erlendis. Ilmur hefur hannað leikmyndir og búninga fyrir Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og víðar. Hún er einn stofnenda CommonNonsense hópsins sem setti m.a. upp Þríleik Hugleiks Dagssonar Forðist okkur, söngleikinn Leg, Baðstofuna, Heimilissirkusinn, Af ástum manns og hrærivélar, heimildaleikverkið Tengdó og rútugjörninginn Routeopiu. Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands og Hafnarborg eiga verk eftir Ilmi..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarstjóri/-ar

Ólöf K. Sigurðardóttir

Listamenn

Boðskort