Veldu ár

2022 (6)
2021 (21)
2020 (21)
2019 (27)
2018 (19)
2017 (21)
2016 (18)
2015 (20)
2014 (19)
2013 (17)
2012 (17)
2011 (22)
2010 (26)
2009 (25)
2008 (24)
2007 (26)
2006 (14)
2005 (16)
2004 (24)
2003 (32)
2002 (18)
2001 (20)
2000 (19)
1999 (13)
1998 (11)
1997 (14)
1996 (17)
1995 (17)
1994 (17)
1993 (22)
1992 (27)
1991 (24)
1990 (24)
1989 (25)
1988 (38)
1987 (38)
1986 (26)
1985 (28)
1984 (34)
1983 (28)
1982 (30)
1981 (26)
1980 (27)
1979 (21)
1978 (23)
1977 (21)
1976 (24)
1975 (19)
1974 (11)
1973 (11)
13.06.2003
31.08.2003

Humar eða frægð

Smekkleysa, sem á alþjóðamáli kallast Bad Taste Ltd., er án efa meðal tilraunakenndustu og djörfustu menningarsamsteypa á norðurhveli jarðar. Á sýningunni í Hafnarhúsinu verður boðið upp á tónlist, ljósmyndir, kvikmyndir og annað sjónrænt efni sem tengist ferli fyrirtækisins og þess fólks sem tekið hefur þátt í að skapa það.

Sambærileg sýning, en þó minni í sniðum, verður opnuð í Spitz galleríinu í London 5. júní, í tengslum við enska útgáfu á tvöföldum yfirlitsgeisladisk Smekkleysu, Lobster or Fame. Á þeim 16 árum sem Smekkleysa hefur verið starfrækt hefur útgáfa hennar verið einstaklega fjölbreytt, allt frá dísætu poppi til rímnakveðskapar, jazz og nútímatónlistar. Meðal þeirra popptónlistarmanna sem útgáfan hefur fóstrað eru Sykurmolarnir, Risaeðlan, Ham, Unun, Kolrassa krókríðandi, Björk, Sigur Rós, Mínus og Ske.

Mikið af myndefni sýningarinnar hefur ekki komið fyrir almenningssjónir áður. Í heild veitir sýningin góða innsýn í hinn skapandi kjarna félagsskaparins sem staðið hefur að útgáfunni; anda stjórnleysis og sérvisku sem hefur getið af sér marga framúrskarandi listamenn og sett varanlegt mark sitt á íslenskt tónlistar- og listalíf. Sykurmolarnir voru fyrsta íslenska hljómsveitin sem hafði umtalsverð áhrif út í hinn stóra heim popptónlistarinnar, og frá því hljómsveitin lagðist til hvílu fyrir rúmum áratug hafa meðlimir hennar og aðstandendur verið trúir upprunalegum metnaði sínum og aðferðum.

Smekkleysa hefur einnig miskunnarlaust notað sambönd sín erlendis til framdráttar íslensku tónlistarfólki og listamönnum. Á sýningunni í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi er sögu þessa félagsskapar gerð skil. Hann hóf göngu sína sem óformlegur hópur í kringum Sykurmolana en þróaðist fljótlega út í virka og fjölbreytta útgáfu með áherslu á öll svið nútímatónlistar, hið talaða orð og sögulegar íslenskar hljóðritanir. Á fyrstu árum Smekkleysu veitti fyrirtækið sérstök Smekkleysuverðlaun til einstaklinga sem þekktir hafa verið fyrir smekkleysi og bruðl, íburð og öfgar, og fyrirhugað er að veita sérstök hátíðar Smekkleysuverðlaun í tilefni sýningarinnar Listasafnsins í júní. Einnig voru svonefnd Smekkleysukvöld haldin nokkuð reglulega á samkomuhúsum Reykjavíkur; ýmist tónleikar þar sem nýjar og spennandi hljómsveitir voru kynntar, og uppákomur sem oft voru á barmi uppistands, klæðskipta og ljóðalesturs.

Rétt er að minnast á viðamikla upplestrar- og tónlistarhátíð sem Smekkleysa hélt fyrir tveimur árum undir yfirskriftinni Orðið tónlist. Smekkleysa hefur ekki aðeins gefið út tónlist því á fyrstu árum hennar voru til dæmis gefnar út skáldsögur og ljóðabækur, póstkort í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins, jólakort og nútímaþjóðbúningur. Humar eða frægð - Smekkleysa í 16 ár er litríkur samtíningur fyrir eyru og augu sem rekur feril útgáfunnar með veggspjöldum, plötuumslögum, ljósmyndum og öðrum sjónrænum meðölum sem fanga hina barnslegu gleði félagsskaparins, áhættu og útgeislun.

Sýningin mun án nokkurs vafa gleðja tónlistarmenn og aðra listamenn, Sykurmolaaðdáendur og aðdáendur annarra hljómsveita á vegum Smekkleysu, og vitaskuld alla þá sem hafa áhuga á samruna jaðarmenningar og ríkjandi smekks. Íslensk alþýðumenning hefur aldrei verið eins alþjóðleg! Nú er rétti tíminn! Ef þið viljið upplifa samtímasýningu sem miðar að því að gera tilraunamennsku, smekkleysi og yfirvegaðri sérvisku jafn hátt undir höfði, og jafnframt sýna fram á að “blönduð tækni" sé ekki bara eitthvað sem þurfi að forðast í æpandi skelfingu, verið þá velkomin í steiktan frægðarhumar Smekkleysu: hreint upppönkað ofursúrt raunsæi.

Sýningarstjóri/-ar: 
Ólafur J. Engilbertsson
Boðskort: 
Sýningarskrá: 
Sýningarskrá: 
Viðburðir tengdir sýningu: 
Föstudaginn 13. júní, Sjón, Bragi Ólafsson, Einar Örn og Curver flytja orð og tóna.

Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.