Kjarvalsstaðir
-
Á rúmlega fjörutíu ára ferli sínum hefur Ragnheiður skilað drjúgu lífsverki, sem lifir í myndhugsun Íslendinga. Eftir að hefja feril sinn sem listmálari var hún meðal frumherja í flokki þeirra sem settu grafíklistina í öndvegi í íslenskum listheimi á 8. og 9.
áratug síðustu aldar. Ýmsar túlkanir hennar úr hversdagleikanum urðu að táknmyndum samtímans, einkum á sviði kvennabaráttunnar og þeirrar umræðu um sjálfsvitund einstaklingsins, sem varð áberandi í umræðu vestrænna þjóða á þessum tíma.
Hróður Ragnheiðar barst víða um lönd með þátttöku hennar í fjölda samsýninga, og grafíkverk hennar er að finna í ýmsum erlendum söfnum, allt frá Færeyjum til Egyptalands, auk þess sem verk hennar eru í fjölda safna á Íslandi. Um 1990 tók Ragnheiður að hverfa á vit teikningarinnar í listsköpun sinni, þar sem frjálslegt línuspil á stórum myndflötum skapar fjölbreytt mynstur og flæði, sem má hverfa inn í og fylgja eftir um sviðið. Frá þeim tíma hafa teikningarnar verið kjarninn í myndheimi Ragnheiðar. Í stórum teikningum, sem gjarna eru skapaðar í flokkum, má nema kjarna tilverunnar, iður og strauma lofts, láðs og lagar, sem einkenna náttúruna í sinni smæstu jafnt sem stærstu mynd, og fylla hugi áhorfandans í túlkun listakonunnar.
Sýning Ragnheiðar stendur til 20. janúar 2013..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Eiríkur Þorláksson
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort
Sýningarskrá JPG