Hafnarhús
-
Eins og heiti sýningarinnar, Hreyfing augnabliksins, ber með sér, eru með henni könnuð umbreytingaröfl. Öll listaverkin tengjast framvindu og breytingum. Þau eru útkoman úr ópersónubundnum og óvissum verkferlum sem listamennirnir styðjast við til að breyta efniviði sínum, færa hann úr einu ástandi í annað.
Endanleg ásýnd listaverkanna er ófyrirsegjanleg, þar eð listamennirnir leyfa efnafræðilegri virkni efniviðarins að vinna upp á sitt eindæmi, að mestu án afskipta af hendi listamannsins.
Hér beinist athyglin að framvindu sjálfrar umbreytingarinnar. Listaverkin sem getur að líta á þessari sýningu eru formbirtingar verkferlanna og þær bera merki tímans sem virknin tekur. Í þessu sambandi er við hæfi að vitna til orða Jóhanns Eyfells, sem sagði „samfellur“ sínar „gefa okkur færi á að hlaupast eitt augnablik undan merkjum tímans til að geta séð honum bregða fyrir eitt augnablik“.
Við sjáum hina óvissu verkferla vinna á mismunandi máta í verkum þessara sex listamanna. „Tausamfella“ Jóhanns Eyfells er gerð úr stranga af gegndræpu taui sem hefur legið á blautri mold í nokkrar vikur, og ofan á því ýmsir hlutir úr mismunandi málmi. Þrýstingur þyngdaraflsins og virkni efnanna setja mark sitt á tauið án þess að listamaðurinn stjórni útkomunni.
Í Efnislandslögum sínum, sem enn eru í vinnslu, gerir Guðrún Einarsdóttir tilraunir með mismunandi tegundir og magn olíu, olíulits og olíuíblöndunarefna til að breyta og teygja á því hvernig málningin þornar.
Þornunartíminn getur verið 12–14 mánuðir og jafnvel lengri, eftir því hvernig efnunum er blandað saman. Markmiðið er ekki að þróa aðferð sem leiðir af sér fyrirsegjanlega útkomu, heldur fremur að breyta og auka fjölbreytileika þróunarferlisins. Harpa Árnadóttir ber á strigann lög af litardufti og lími, sem gerir að verkum að striginn dregst saman og mýkist á víxl, sem veldur því að yfirborðið verður alsett óútreiknanlegum sprungum. Hita- og rakastig umhverfisins hefur svo þau áhrif að málverkin halda mögulega áfram að springa og breytast lengi eftir að listamaðurinn hefur „lokið“ verki sínu, sem að sínu leyti gerir hugmyndina um „verklok“ merkingarlausa.
Verk frá árinu 2005 eftir Rögnu Róbertsdóttur samanstendur einfaldlega af fægðri silfurplötu sem hangir á vegg og listamaðurinn hefur leyft að falla á. Ferlið heldur áfram svo lengi sem silfrið er berskjaldað fyrir andrúmsloftinu og birtunni, sem valda því að yfirborð þess dökknar og skiptir litum. Undanfarið hefur Ragna unnið verk með því að leysa upp salt í vatni og hellt saltupplausninni yfir glerplötu, þar sem saltið kristallast af sjálfu sér í ýmsum formum og myndum meðan vatnið í lausninni gufar upp. Og í sinni nýju ljósmyndasyrpu notast Sólveig Aðalsteinsdóttir hvorki við myndavél né linsur til að stjórna ljósmagninu. Hún hefur filmuna óvarða í myrku herbergi í talsvert langan tíma og lætur ljósið sem „lekur“ inn í rýmið um að skapa formin sem festast á yfirborði filmunnar.
Lokarahraði eða ljósop hefur ekkert með útkomuna að gera. Ekki er hægt að spá neinu fyrir um hvernig ljósmyndin mun líta út og það verður ekki ljóst fyrr en filman hefur verið framkölluð. Í myndbandsinnsetningu sinni (eina verkinu á sýningunni sem fellur undir hefðbundna skilgreiningu á „tímatengdum“ miðlum) hefur Þór Elís Pálsson látið tilviljun ráða því hvernig tvær myndbandsvarpanir mætast á sama tjaldinu, svo að fyrir vikið mynda þær síbreytilegt sjónarspil sem kemur á óvart með tengingum sínum.
Sýningarstjóri er Hafþór Yngvason. Dagskrá: Sunnudag 30. september kl. 14 Hafnarhús – Hreyfing augnabliksins Málþing skipulagt í tengslum við sýninguna Hreyfing augnabliksins. Umræður taka á hugmyndinni um tímann sem grunneiningu í listrænu ferli myndlistarverka. Sunnudag 21. október kl. 15 Hafnarhús – Hreyfing augnabliksins Sýningarstjóraspjall Hafþórs Yngvasonar. Sunnudag 2. desember kl. 15 Hafnarhús – Hreyfing augnabliksins Gestaspjall Þórs Elís Pálssonar um listamanninn Jóhann Eyfells, verk hans og heimspeki..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Hafþór Yngvason
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Sýningarskrá JPG