Hljóm­fall litar og línu

Hljómfall litar og línu

Hljómfall litar og línu

Hafnarhús

-

Sýningin snýst um myndlistarverk í anda „sjónrænnar tónlistar“ (visual music). Allt frá því  snemma á 20. öld hafa myndlistamenn í leit að óhlutbundnu tjáningarformi leitað að fyrirmyndum í tónlist.

Forvígismenn afstraktmálverksins leituðu meðvitað í fagurfræði tónlistar til að þróa nýja tegund af málverkum, án tilvísunar í ytri raunveruleika. Á þriðja áratug síðustu aldar fóru svo framsæknir listamenn að gera tilraunir með nýja möguleika sem kvikmyndatæknin bauð upp á til að skapa sjónræna tónlist. Síðan þá hefur tilkoma vídeótækninnar  og sífellt fullkomnari tón- og myndvinnslubúnaður gert listamönnum mögulegt að þróa þetta listform lengra og að skapa verk í anda sjónrænnar tónlistar án aðstoðar herskara tæknimanna. Þannig má rekja hugmyndir um sjónræna tónlist í gegnum alla listasögu tuttugustu aldar og fram á okkar tíma.

Sýningin skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum eru sýnd lykilverk eftir helstu frumkvöðla sjónrænnar tónlistar, Viking Eggeling, Thomas Wilfred, Oskar Fischinger og bræðurna John og James Whitney.

Verkin gefa hugmynd um sögulegt baksvið listgreinarinnar. Annar hluti samanstendur af verkum eftir íslenska og erlenda samtímalistamenn. Meðal verka er ný innsetning, Trajectories, eftir Sigurð Guðjónsson og Önnu Þorvaldsdóttur, DeCore (aurae), eftir listamanninn Doddu Maggý og valin verk eftir bandaríska listamanninn Jeremy Blake. Einnig verða sýnd verðlaunaverk frá sjónrænu tónlistarhátíðinni Punto y Raya sem verður haldin í Hörpu  um mánaðamótin janúar-febrúar.

Jón Proppé er sýningarstjóri þriðja hluta sýningarinnar sem samanstendur af u.þ.b. 40 minni verkum sem sýna hvernig hugmyndir um samhengi myndlistar og tónlistar þróuðust hér á landi. Þótt abstraktið kæmi seint til Íslands höfðu listamenn snemma áhuga á hinni nýju fagurfræði og talsvert var rætt um hvernig myndlist gæti líkst tónlist og orðið æðra, óhlutbundið listform. Þegar Svavar Guðnason opnaði stóra sýningu af abstraktmyndum sínum í Reykjavíkur í ágúst 1945 lagði eðlisfræðingurinn Björn Franzson til að áhorfandinn „reyni að horfa á þær, líkt því sem hann væri að hlýða á hljómlist“. Þessi nálgun hafði mikil áhrif á abstraktlistina sem fylgdi í kjölfarið og á síðustu áratugum hafa listamenn fundið sífellt nýjar leiðir til að kanna samspil tónlistar og myndlistar, í hefðbundnum jafnt sem nýjum miðlum.

Sýningin er haldin í samstarfi við Miðstöð sjónrænnar tónlistar (www.rcvm.is) og opnar á fyrstu hátíð sjónrænnar tónlistar á Íslandi, sem fer fram í Hörpu 30. janúar til 2. febrúar. Verk Sigurðar og Önnu var pantað sérstaklega fyrir hátíðina af Miðstöð sjónrænnar tónlistar. Friðrik Steinn Kristjánsson styrkir sýninguna og hátíðina með úthlutun úr Listasjóði Silfurbergs  (Silfurberg Art Fund)..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun