Hildur Hákon­ar­dóttir: Rauður þráður

Hildur Hákonardóttir, 3ja stéttin, 1973

Hildur Hákonardóttir: Rauður þráður

Kjarvalsstaðir

-

Rauður þráður er fjölbreytt og yfirgripsmikil sýning á verkum myndlistarkonunnar Hildar Hákonardóttur. 

Hildur Hákonardóttir (1938) hefur á löngum starfsferli sínum tekið á málefnum samtíma síns og kynjapólitík og nýtt til þess fjölbreytta miðla, þó mest vefnað. Á sýningunni má sjá mörg af þekktustu verkum Hildar sem hafa öðlast mikilvægan sess í íslenskri menningarsögu og haft áhrif til breytinga í þjóðfélaginu. Einnig verða sýndar innsetningar, ljósmyndir, myndbandsverk og tölvugerðar teikningar frá víðfeðmum ferli sem spannar yfir 50 ár. Sýningarstjóri er Sigrún Inga Hrólfsdóttir en sýningin er afrakstur rannsóknar Sigrúnar á ferli Hildar.

Listasafn Reykjavíkur hlaut Öndvegisstyrk Safnaráðs árið 2021 til þess að rannsaka hlut kvenna í íslenskri myndlist í samstarfi við námsbraut í listfræði við  Háskóla Íslands. Sýningin er sú fyrsta af þremur sem úr þessum Öndvegisstyrk kemur. 

Sýningin veitir innsýn í feril Hildar og starfsaðferðir hennar í gegnum tíðina sem eru samofnar þeim málefnum sem eru efst á baugi í samtíma okkar, einkum umhverfis- og jafnréttismál. Hildur er einnig mikilvirkur ræktandi og hefur velt fyrir sér margvíslegum kerfum, bæði manngerðum og lífrænum, sem er að finna í heiminum. Hildur var búsett í New York fylki 1956-1963 ásamt þáverandi eiginmanni sínum sem varð síðar einn af frumkvöðlum tölvutækni á Íslandi. Hún varð því vitni að frumbernsku tölvutækninnar en kynntist líka kvennabaráttu, réttindabaráttu svartra, andstöðu við stríðsrekstur og umhverfisumræðu, jafnframt því að skynja nýjar birtingarmyndir innan myndlistarinnar - popplist, flúxus og konsept. 

Hildur lærði myndvefnað við Myndlista- og handíðaskólann 1964-68 og Edinburgh College of Art 1969. Henni þótti hún hafa lært fánýti þegar hún útskrifaðist úr listaskólanum árið 1969 en áttaði sig fljótlega á því að sú sem kann að vefa kann að skipuleggja fjöldahreyfingu.

Myndir frá sýningu

Hún var ein af frumherjum Rauðsokkahreyfingarinnar sem olli straumhvörfum innan jafnréttisbaráttunnar á áttunda áratugnum.

Rauðsokkur tóku þátt í pólitískri umræðu og stóðu fyrir útgáfu, gjörningum og öðrum aktívisma sem opnaði augu margra fyrir kúgun kvenna. Titill sýningarinnar er skírskotun til vefnaðar og textíls en líka til þess hvernig vefnaður er notaður sem myndlíking í tungumálinu. Rauður er litur byltingarinnar þó svo það sé ekki sagt berum orðum.

Hildur var ein fárra kvenna í SÚM og allt frá fyrstu einkasýningu sinni í Gallerí SÚM árið 1971 hefur hún unnið með hugmyndir samtíma síns með hefðbundnum aðferðum vefnaðar í bland við aðra tækni. Árin 1975-78 var hún skólastjóri Myndlista- og handíðaskóla Íslands og setti þá á fót tvær nýjar deildir við skólann, þar á meðal Deild í mótun (síðar Nýlistadeild) sem var ætlað að fleyta fram nýjum hugmyndastraumum þess tíma sem kenndir hafa verið við póstmódernisma. Þessi deild átti eftir að hafa umtalsverð áhrif innan myndlistarheimsins á Íslandi og víðar og þannig gætir enn þeirra áhrifa sem Hildur hafði á myndlistarmenntun á Íslandi. Hún var lengi safnstjóri Listasafns Árnesinga. Í seinni tíð hefur Hildur einbeitt sér að ritstörfum og eru þekktastar bækurnar Ætigarðurinn (2005) og Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú? ( I-II 2019-2021). Samhliða sýningunni kemur út vegleg bók sem er heimild um ævistarf Hildar með umfjöllun um lykilverk hennar, myndum frá ferlinum og ritgerð Sigrúnar -  auk greina eftir Guðmund Odd Magnússon. Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur ritar formála..

Myndir frá opnun