Veldu ár
Hafnarhús – pakkhús hugmynda í miðborginni
Hafnarhúsið var upprunalega hannað sem skrifstofu- og vörugeymsluhús Reykjavíkurhafnar á fjórða áratug síðustu aldar. Á þeim tíma var höfnin líflína borgarinnar við umheiminn og var Hafnarhúsið því vegna staðsetningar sinnar frá upphafi virkur þátttakandi í borgarlífinu. Byggingin var hönnuð undir áhrifum frá stefnu sem kennd var við funksjónalisma og gerði kröfu um samvirkni forms og notagildis. Þannig endurspeglaðist upphaflegt hlutverk byggingarinnar í hönnuninni og tengdi hana umhverfi sínu.
Undir lok 20. aldar þróaðist svæðið við Reykjavíkurhöfn mikið vegna breytinga á hafnarstarfseminni sem varð til þess að Hafnarhúsið glataði sínu upphaflega hlutverki. Tekin var ákvörðun um að koma Listasafni Reykjavíkur fyrir í hluta af Hafnarhúsinu en talið var að staðsetning safnsins þar gæti m.a. endurnýjað tengslin milli miðborgar og hafnar sem glatast höfðu árin á undan. Þannig gæti listasafnið hjálpað til við að virkja umlykjandi borgarrými og Hafnarhúsið orðið á ný virkur þátttakandi í miðborginni, að þessu sinni í gegnum list og menningu. Arkitektastofan Studio Granda varð hlutskörpust í samkeppni um hönnun Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi. Í tillögu sinni unnu þau með sögu staðarins með það að leiðarljósi að opna aftur tenginguna við höfnina. Einnig var í tillögunni leitast við að halda í einkenni upphaflegu byggingarinnar og halda þannig í söguleg tengsl, þar á meðal portið í miðju hússins sem á sér fáar hliðstæður í íslenskri byggingarsögu.
Í ár eru 20 ár frá því að hluti Hafnarhússins varð einn af þremur húsakostum Listasafns Reykjavíkur. Á þessari sýningu er Hafnarhúsið í forgrunni og saga þess og umbreyting í listasafn sýnd í gegnum meðal annars teikningar og ljósmyndir. Einnig er skoðað hvernig safnbyggingin sem rými vinnur með listinni og tengist umhverfi sínu borgarrýminu.


Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.