Guðrún Kristjáns­dóttir: Leiðir

Guðrún Kristjánsdóttir, Innsýn II, olía á hörstriga 170x275, 1998

Guðrún Kristjánsdóttir: Leiðir

Kjarvalsstaðir

-

Sýning Guðrúnar Kristjánsdóttur í Vestursal Kjarvalsstaða færir víðáttur náttúrunnar nær okkur.

Guðrún hefur skapað sér sérstöðu í íslenskri myndlist með verkum sem skoða samband náttúru og manns, mótað af veðri og birtu á Íslandi. Hún nálgast náttúruna sem lifandi afl, þar sem kyrrð og kraftur mætast og óvænt fegurð birtist í hógværum augnablikum.

Verk Guðrúnar endurspegla stöðuga leit að jafnvægi og fanga bæði hið smáa og víðfeðma í landslaginu. Í málverkum hennar birtist náttúran sem síbreytilegt ferli þar sem umbreyting og hreyfing eru í stöðugri samvinnu. Með því að tengja saman ólík efni og aðferðir – myndbönd, ljós, speglanir, rímur og tónlist – verður til staður og stund þar sem skynjunin sjálf verður hluti af verkinu. Á síðustu árum hefur hún unnið með efni úr umhverfinu – steina, jarðefni og surtabrand – og skapað verk sem bera með sér arfleifð jarðsögunnar. Sýningin spannar verk frá áratugalöngum ferli Guðrúnar og gefur heildstæða mynd af óþrjótandi áhuga listakonunnar á að fanga upplifun okkar af náttúrunni - frá agnarsmáum vatnsdropum til þokukenndra fjallstinda, bláma fjarskans og ljósi sem breytist á hverri stundu. Sýningin tengir saman náttúru, skynjun og tíma og kallar fram upplifun sem er bæði sjónræn og tilfinningaleg – andartak til að staldra við og finna snertingu við umhverfið.

Ágrip listamanns: Guðrún Kristjánsdóttir er fædd árið 1950 og nam myndlist við École des Beaux-Arts í Aix-en-Provence í Frakklandi. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Kjarvalsstöðum árið 1986 og hefur síðan sýnt víða, bæði á Íslandi og erlendis, meðal annars í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Guðrún hefur starfað sem listamaður í yfir fjóra áratugi og einnig sem sýningarstjóri, ritstjóri og fyrirlesari. Hún býr og starfar í Reykjavík og að Hlöðubergi á Skarðsströnd. Sýningin Leiðir sprettur upp úr bókverkinu Bláleiðir, sem Guðrún vann ásamt Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Snæfríð Þorsteinsdóttur, byggðu á ævistarfi listakonunnar.

himinn og jörð I
Guðrún Kristjánsdóttir, himinn og jörð I
Guðrún Kristjánsdóttir, View, 1989
Guðrún Kristjánsdóttir, Mynd III, 2009

Ítarefni

Sýningarstjóri

Sunna Ástþórsdóttir

Kynningarmynd sýningar

Guðrún Kristjánsdóttir, Innsýn II, olía á hörstriga 170x275, 1998.

Listamenn