Grafísk hönnun á Íslandi

Grafísk hönnun á Íslandi

Grafísk hönnun á Íslandi

Hafnarhús

-

Félag Íslenskra teiknara fagnaði 50 ára afmæli sínu á síðasta ári og hefur af því tilefni ráðist í gerð heildstæðrar yfirlitssýningar sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Samtíminn horfir gjarnan sljóum augum á umhverfi sitt, og nytjalist hversdagsins er ekki veitt harla mikil athygli. Einmitt þessi sama nytjalist og hversdagsleiki verður þó með tímanum verðmæt verksummerki liðins tíma sem endurspeglar tíðaranda, þankagang og þjóðfélag af næmni og innsæi sem hvorki rúmast innan sagnfræðinnar né félagsfræðinnar.

Sagan verður rakin í gegnum hina ýmsu miðla og birtingarmyndir fram til dagsins í dag.

Efnisflokkar á sýningunni spanna vítt svið allt frá spegilmynd liðins tíma í formi auglýsinga, áróðurs, peningaseðla, umbúða og myndskreytinga, frá fyrstu sjónvarpsgrafíkinni, sjónvarpsauglýsingunum, bókunum og prentefninu til þess ferskasta sem á sér stað í grafískri hönnun í dag.

Gífurleg heimildarvinna liggur að baki sýningarinnar enda hefur verið lagt kapp á að safna saman þeim fróðleik sem geymdur er hjá eldri söfnurum, fræðimönnum og leikmönnum, svo úr verði heilsteypt og fróðleg saga sem varpar áhugaverðu ljósi á þennan þátt íslenskrar menningar, eða lágmenningar eftir því hvernig á það er litið.

Tilgangurinn með sýningunni er ekki síður að höfða til almennings og veita sýn á þann samtíma og það þjóðfélag sem grafísk hönnun endurspeglar á hverjum tíma. Dusta rykið af neysluvörum gærdagsins og vekja athygli á því sem vel er gert í nútímanum..