Gilbert & George: THE GREAT EXHI­BITION

Gilbert & George: The Great Exhibition

Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION

Hafnarhús

-

Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION er einn stærsti viðburður Listasafns Reykjavíkur árið 2020 og á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Listamannatvíeykið Gilbert & George eru eitt skapandi afl. Þeir hafa unnið saman í meira en fimm áratugi - einstök verk þar sem daglegt líf og myndlist sameinast í einu mengi.

Þeir hafa haft mótandi áhrif á myndlist samtímans og eru þekktir fyrir að ryðja braut gjörningalistar og nálgast einkalíf sitt sem listaverk. Þeir hafa ögrað ríkjandi borgaralegum hugmyndum um smekk og velsæmi og ekki síst stuðlað að breyttum viðhorfum til samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa. Sýningin í Hafnarhúsinu veitir yfirgripsmikla sýn yfir feril Gilbert og George. 

Innblástur okkar er allt þetta fólk sem lifir nú um stundir á plánetunni, í eyðimörkinni, frumskóginum, borgunum. Áhugi okkar kviknar út frá manneskjunni og hinum ólíku tilbrigðum lífsins. — Gilbert & George.

Saman eru Gilbert og George einn listamaður. Nálgun þeirra hefur alltaf verið andstæð hvers kyns elítisma heldur skapað list fyrir alla. Breski rithöfundurinn Michael Bracewell lýsir listrænni sýn þeirra svo: Hugsjón Gilberts og George er list þeirra, sem þeir eru sjálfir holdgervingar af. Þess vegna eru Gilbert og George listin í Gilbert & George. List Gilberts og George byggist á tilfinningum fremur en vitsmunum. Gilbert & George eru algjörlega nútímalegur, sjálfstæður hugsjónalistamaður, einstæður. 

Sýningin Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION í Hafnarhúsinu er sérstaklega unnin fyrir Listasafn Reykjavíkur í góðu samstarfi við Luma safnið í Arles í Frakklandi, Luma Westbau safnið og Kunsthalle Zürich í Sviss og Moderna Museet í Stokkhólmi í Svíþjóð. Sýningin er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík og henni stýra heimskunnir sýningastjórar, þeir Daniel Birnbaum, fyrrum safnstjóri Moderna Museet og Hans Ulrich Obrist, listrænn stjórnandi Serpentine Galleries í London. Í veglegri sýningarskrá sem gefin er út samhliða sýningunni er farið yfir feril listamannanna og þar er einnig ítarlegt viðtal sýningarstjóranna við Gilbert & George. Þar má sjá myndir af fyrstu verkum þeirra, þegar rúðunetsformið er áberandi og þeir voru hvað þekktasti fyrir. Snemma varð myndmálið flóknara, innblásið af symbólisma og allegóríu til að kanna þemu erótíkur, trúar og stjórnmála. Eins þótt list þeirra víki sér aldrei undan ofbeldi, dauða, fátækt og sársauka þess að standa utan samfélags er hún alltaf gáskafull og hlaðin óræðni. Í miðju grimmustu misklíða samfélagsins finna Gilbert & George fegurð og ástæður til að fagna lífinu..

Myndir af sýningu