Frið­arsúlan

Yoko Ono: Friðarsúlan

Friðarsúlan

-

Verkið er í formi „óskabrunns“ en á hann eru orðin „Hugsa sér frið“ grafin á 24 tungumálum.

Friðarsúlan í Viðey er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfrið.

Upp úr brunninum stígur ljóssúla sem er samansett úr fimmtán geislum sem sameinast í einu sterku ljósi. Sex ljósgeislanna fara lárétt um göng á palli í kring um brunninn og er endurkastað upp á við með speglum. Pallurinn er þakinn þrenns konar íslensku grjóti – líparíti, grágrýti og blágrýti. Þessi hönnun er táknræn tjáning Yoko Ono á leiðbeiningarverki sem hún gerði árið 1965 og nefnist Ljóshús. „Ljóshúsið er tálsýn, byggt úr tæru ljósi. Sláðu upp strendingum á ákveðnum tíma dags, við ákveðna kvöldbirtu sem streymir gegnum strendingana, og ljóshúsið birtist í miðju vallarins eins og táknmynd, nema hvað þessi táknmynd býður þér inngöngu ef þú vilt. Svo kann að fara að ljóshúsið birtist ekki daglega, alveg eins og sólin skín ekki daglega.“ Þann 9. október 2007 var listaverkið tileinkað minningu Johns Lennon sem hefði þá orðið 67 ára. Á hverju ári lýsir friðarsúlan frá 9. október (fæðingardegi Lennons) til 8. desember (dánardags hans). Einnig logar ljósið frá vetrarsólstöðum til nýársdags og eina viku að vori. Uppsetning friðarsúlunnar er samstarfsverkefni Yoko Ono, Reykjavíkurborgar, Listasafns Reykjavíkur og Orkuveitunnar.

Yoko Ono (1933) er leiðandi myndlistarmaður á sviði tilrauna og framúrstefnu. Hún er iðulega tengd við listhreyfingar sem mótuðust á sjöunda áratugnum á borð við konseptlist, gjörninga, flúxus og viðburðalist og er ein fárra kvenna sem tók virkan þátt í þeim. Mörg af frægustu verkum Yoko Ono eru svokölluð þátttökuverk þar sem hún býður almenningi að taka þátt í sköpun listarinnar og eru Óskatrén gott dæmi þar um.

Allar frekari upplýsingar um Friðarsúluna má finna á imaginepeacetower.com.

Yoko Ono: Friðarsúlan

Listamenn