Ásmundarsafn
-
Ásmundur Sveinsson nefndi oft að tröllin hans ættu upphaf sitt að rekja til íslensku fjallanna. Aðrir hafa tekið undir þetta; Tónar hafsins, Tröllkonan, Sonartorrek og Helreiðin - allt séu þetta monúmental verk, sem bendi til himins, og sópar að líkt og að fjöllunum. Þannig hefur íslensk náttúra verið kveikjan að fjölskrúðugum listaverkum Ásmundar, sem rísa upp með stórfengum hætti en vísa um leið til mannsins og tilvistar hans. Í formum sínum og inntaki benda þau um leið til þeirrar óþrjótandi uppsprettu listarinnar sem er að finna í fjöllum landsins og þeim hulduheimum, sem þar þrífast í vitund þjóðarinnar.
Fleiri íslenskir myndhöggvarar hafa leitað til náttúrunnar, hver með sínum hætti.
Fáir þeirra sem nú starfa á þessum vettvangi hafa þó verið jafn gagnteknir af þeim möguleikum sem landið býður listamanninum upp á og Páll Guðmundsson frá Húsafelli. Páll hefur lengi unnið beint í náttúruna í sínu næsta nágrenni, þar sem hann sækir efni sitt - íslenskt grjót í öllum regnbogans litum. Þar verða myndefni hans einnig til, líkt og þau spretti út úr steinunum, sem listamaðurinn hefur valið að vinna í hvert skipti.
Bæjargilið við Húsafell hefur verið allt í senn; efnisnáma listamannsins, vinnustaður og uppspretta hugmynda. Verk hans sýna okkur ýmist persónur, dularfullar fígúrur, dýr eða undraverur; allt þetta blasir við í grjótinu úr gilinu eftir að listamaðurinn hefur farið um það höndum, hömrum og meitlum. Hann hefur leyst úr læðingi þær myndir, sem búið hafa innra með efninu. Það býr margt tröllslegt í þeir björgum, sem Páll Guðmundsson hefur skapað listaverk sín úr. Þær forynjur sem búið hafa í íslenskum fjöllum samkvæmt þjóðtrúnni hafa sýnilega margar orðið þeim örlögum að bráð að daga uppi við Húsafell - og síðan að njóta þeirra forréttinda að finnast og birtast á ný fyrir tilstilli myndhöggvarans.
Þjóðsögur hafa verið mörgum íslenskum listamönnum ríkuleg viðfangsefni. Þeir Ásmundur Sveinsson og Páll Guðmundsson hafa báðir sótt mikið í brunn þjóðsagna, og eru t.d.
verk Páls helguð Hellismannasögu afar eftirminnileg; sýning þeirra í Surtshelli í Hallmundarhrauni var ein sérstæðasta listsýning síðasta áratugar.
En það býr fleira í grjótinu frá Húsafelli en furðudýr og undraverur. Þar er einnig að finna hinn hreina tón, sem hljómar tært þegar slegið er á steininn. Og fyrr er varir er listamaðurinn búinn að koma saman heilu hljómborði af ólíkum steinum, og tónlistarmenn hafa fengið aðgang að nýju hljóðfæri náttúrunnar, sem hægt er að spila á fjölbreytilega tónlist innan um önnur listaverk. Rímið í landinu og hljómurinn náttúrunnar sjálfrar koma þannig saman á einum stað - að þessu sinni á samsýningu Ásmundar Sveinssonar og Páls Guðmundssonar í Ásmundarsafni. Eiríkur Þorláksson..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Þorbjörg Gunnarsdóttir
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort
Sýningarskrá JPG