Kjarvalsstaðir
-
Eyjólfur Einarsson var snemma ákveðinn í að helga sig listinni. Hann var ófermdur þegar hann sótti námskeið hjá Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara, og er ekki að efa að sá öðlingur hefur haft umtalsverð áhrif á hinn unga nemanda og hert hann til frekara listnáms. Eyjólfur var enn á unglingsárum þegar hann stundaði nám í Myndlista- og handíðaskólanum, en síðan settist hann rúmlega tvítugur í konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn.
Þar var hinn þekkti danski listamaður Sören Hjorth-Nielsen aðalkennari hans um fjögurra ára skeið.
Áður en Eyjólfur hélt til Danmerkur hafði hann hins vegar haldið sína fyrstu einkasýningu hér á landi. Það var mikil gerjun í listalífinu í Danmörku á sjöunda áratugnum, og ferskir vindar óþreyju og breytinga léku um Kaupmannahöfn.
Þetta voru spennandi tímar fyrir ungt listafólk sem var móttækilegt fyrir þeim straumum sem voru teknir að hrista undirstöður listastofnana vanans; ferillinn framundan yrði vottur þess hvernig hver og einn næði að vinna úr þeim hughrifum, sem þessir átakatímar buðu upp á. Eins og margir samtímenn hans valdi Eyjólfur snemma málverkið sem sinn helsta miðil. Hann tók upp þráðinn í ríkjandi tjáningarmáta listamanna hér á landi – í abstrakt-málverkinu. Þessi hægláti listamaður þróaðist um síðir frá þeim viðhorfum yfir í hlutbundnari myndheima, þar sem sambúð manns og umhverfis birtist með nýjum hætti.
Á sýningu hans á Kjarvalsstöðum getur að líta undraheima, þar sem hringekja lífsins birtist okkur í dulúðugu landinu.
Vegir liggja til allra átta, og örlögin spinna hverjum og einum sína þræði. Þannig birtist tilvera mannsins með óvæntum hætti í verkum Eyjólfs Einarssonar, og áhorfandinn getur þar vissulega fundið sjálfan sig leggi hann sig eftir því..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Ágústa Kristófersdóttir
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort