Errósa­fnið

Errósafnið

Errósafnið

Hafnarhús

-

Listamaðurinn Erró eða Guðmundur Guðmundsson lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi og eru viðfangsefni verka hans ótrúlega fjölbreytt. Hann er mjög afkastamikill og vinnur verk sín í seríum eða myndaröðum. Pólitík og samfélagsleg málefni hafa löngum verið eitt meginviðfangsefni verka hans ásamt tilvísunum í lista- og menningarsöguna.

Á þessari sýningu á verkum úr safneign Listasafns Reykjavíkur er viðfangsefni verkanna listamenn sem fást við myndlist, tónlist eða bókmenntir ásamt myndum með pólitíska skírskotun.

Erró hefur alltaf verið óhræddur við að takast á við nýja tækni og í myndaröðinni Listasagan notar hann samskonar forrit og iðnhönnuðir nota þar sem grunnurinn er net og hver möskvi rammar inn eina mynd.

Þegar þessi myndaröð var sýnd í Edinborg árið 1994 sagði í blaðaumsögn um sýninguna: Notkun á netgrindinni er sérlega árangursrík. Allar myndirnar sem tilheyra hverri hugmynd um sig hafa áhrif um leið og augað nemur þær. Að festa hugmynd á strigann um leið og myndirnar þjóta hjá hlýtur að vera eins og að reyna að mála vindinn, en Erró tekst það frábærlega. Í Listasögumyndunum finnst manni að tekist hafi að fanga á strigann nákvæmlega það sem flýgur í gegnum hugann um leið og manni dettur ákveðin listastefna eða listamaður í hug.

Að beiðni Parísarborgar bjó Erró til stóra veggmynd á fjölsbýlishús við götuna Baron Le Roy í Bercy hverfinu árið 1993. Veggmyndin er samantekt myndanna átta, Gauguin, Matisse, Magritte, Picasso, Otto Dix, Portrett Expressjónistanna, Léger og Miro frá árunum 1991-1992 sem Erró gaf Reykjavíkurborg um svipað leyti.

Í myndaröðin Ævi listmálara rekur Erró helstu atriði úr ævi þekktra málara á sama hátt og gert er í teiknimyndasögum. Með þessari aðferð getur hann sýnt á gagnrýnin og á stundum kaldhæðinn hátt kviksjárbrot úr vel þekktum ævisögunum.

Á sýningunni má sjá verk úr þessari myndaröð: Ævi Rubens frá árinu 1977. Erró hefur einnig fjallað um ævi tónskálda og tónlistarmanna í myndaröðinni Kontrapunktur. Hann hefur sjálfur sagt um þessar myndir: Hvert málverk á að endurspegla sögulegt andrúm tónskáldsins og fagurfræðileg viðhorf á tíma tónlistarsköpunar þess. Á sýningunni eru verk úr þessari myndaröð frá árunum 1974 til 1982 þar sem fjallað er um Wagner, Schumann, Vaughn Williams, Brahms og Paganini. Um svipað leyti og Erró málaði Kontrapunkt-myndröðinna gerði hann verk sem helguð voru skáldum og bókmenntajöfrum. Eitt þeirra fjallar um ævi og list Edgar Allan Poe eins kunnasta og hæfileikaríkasta skálds Bandaríkjamanna á nítjándu öld.

Í pólitísku myndunum Ísrael, Allende og Endurfæðing Nazismans sem gerðar voru á árunum 1974-77 er fjallað um alþjóðleg stjórnmál og þar fá ýmsir sinn skerf; Bandaríkin, þáverandi Sovétríkin, Ísrael og þeir sem stuðla að uppgangi ný-nazista. Erfitt er að greina viðhorf listamannsins sjálfs í þessum myndum en efniviður þeirra er aðallega fengin úr sovéska skopmynda tímaritinu Krokodil. Þess vegna mætti álykta að listamaðurinn væri að draga fram sovéskt sjónarhorn á pólitíska atburði. En við nánari skoðun kemur í ljós að með þessu opinberast um leið sovéskar áróðursmaskínur og að verk Errós opna augu áhorfandans fyrir því að allar myndir séu margræðar og að alla atburði sögunnar má sjá frá fleiri en einum sjónarhóli..

Ítarefni

Listamenn