Erró: Sprengi­kraftur mynda

Erró: Sprengikraftur mynda

Erró: Sprengikraftur mynda

Hafnarhús

-

Erró er einn fárra íslenskra listamanna sem náð hafa fótfestu í heimi alþjóðlegrar myndlistar. Sprengikraftur mynda er heildstæð úttekt á hinum litríka ferli listamannsins sem hefur fengist við ýmsa miðla myndlistarinnar. Þar má finna allt frá gjörningum, vídeólist, grafík, fjölfeldi og klippimyndum, til stórra verka í almannarými og málverka á öllum skala, sem hafa unnið honum verðugan sess í evrópskri listasögu.

Hér er á ferðinni umfangsmesta sýning sem sett hefur verið upp á verkum listamannsins hérlendis. Listamaðurinn Erró, fæddur Guðmundur Guðmundsson árið 1932 í Ólafsvík á Vesturlandi, var í fararbroddi evrópsku framúrstefnunnar á sjöunda áratugnum. Í listasögu þessa tímabils er nafn hans ekki aðeins tengt endurnýjun fígúratífs myndmáls, vegna uppfinningar hans á frásagnarmálverkum sem byggja á samklippi, heldur einnig við hræringar sem á sínum tíma voru kenndar við uppákomur og tilraunakvikmyndir. Þótt verk hans séu réttilega gjarnan tengd við súrrealisma, fígúratífa frásögn eða popplist, er ekki hægt að spyrða þau við eina þeirra umfram aðra. Erró sækir innblástur í hnattvædda veröld okkar með sínu látlausa flæði mynda og upplýsinga.

Sem brautryðjandi á sviði hins málaða samklipps (þ.e. þeirrar aðferðar að mála eftir samklippi sem hefur verið samsett úr fundnu myndefni), hefur hann sett fram yfirgripsmikla sögu af neytendasamfélagi og heimspólitík, oft frá gagnrýnu eða háðsku sjónarhorni. Við það að blanda frjálslega saman myndum af ólíkum uppruna, og stefna þeim hver gegn annarri, einkennist ævistarf hans af sneisafullum, marglaga og oft og tíðum truflandi verkum sem brjóta upp menningarlegar staðalmyndir og valdakerfi auk þess að blanda saman fortíð og nútíð, skáldskap og raunveruleika. Frumlegar samsetningar hans þenja hugmyndina um samklipp út í ystu æsar og bera á borð flæði myndrænna frásagna sem takast á við „alheimsvettvanginn“ löngu áður en internetið kom til sögunnar og hnattvæðing ruddi sér til rúms. Yfirlitssýning þessi rekur gjörvallan feril Errós eftir tímabilum og þemum, í öllum sínum fjölbreytileika, allt fram til nýjustu verka hans. Hér er afrakstur sjö áratuga vinnu þar sem sjá má hvernig myndir eftir aðra og úr kunnuglegum myndheimi dægurmenningar hafa alla tíð fóðrað ímyndunarafl listamannsins og listsköpun. Hann hefur verið óþreytandi að viða að sér myndefni allstaðar að úr heiminum sem síðan hefur öðlast nýja merkingu og lent í óvæntu samhengi. Á sýningunni er leitast við að sýna hvernig heimildasafn Errós hefur stækkað og endurnýjast í áranna rás og fangað öll möguleg svið, frá list og kvikmyndum til teiknimyndasagna, í gegnum vísindi og tækni, sögu og stjórnmál, auglýsingar, áróður eða erótík. Hér eru dregnar fram þær ólíku leiðir sem hann hefur farið við að endurvinna og aðlaga þennan myndræna efnivið að því marki að sporna við hvers konar yfirvaldi og tjá um leið óvenju auðugt ímyndunarafl. 

Sýningin Sprengikraftur mynda endurspeglar glæsilegan feril Errós og byggir að mestu á listaverkagjöf listamannsins til Reykjavíkurborgar. Árið 1989 tók Reykjavíkurborg við stóru safni, um 2000 verkum eftir listamanninn, auk skjala og annarra gangna sem hafa mikið gildi fyrir rannsóknir sem snerta listamanninn og samtíma hans. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu árin og telur nú um 4000 listaverk. Errósafninu var fundinn staður í Hafnarhúsi og var gjöfin grunnur þess að Listasafn Reykjavíkur hóf starfsemi í húsinu. Sýningar úr safni Errós eiga sér þar fastan sess en með þeim er leitast við að gefa innsýn í ólíkar áherslur í verkum hans. Þegar sýningunni lýkur í Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhúsi fer hún á ferð um Evrópu og verður opnuð í ARos safninu í Árósum í apríl, 2023.  

Sprengikraftur mynda er sett upp í öllu Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi og verða þar meira en 300 listaverk af ýmsum gerðum, sem og ljósmyndir og annar fróðleikur um listamanninn. Í tengslum við sýninguna kemur út vegleg sýningarskrá með textum eftir sýningarstjórana, þau Gunnar B. Kvaran og Danielle Kvaran, sem rita um ólík tímabil á ferli listamannsins, ásamt textum og viðtölum eftir Bjarna Hinriksson, Jean-Max Colard, Alain Jouffroy, Jean-Jacques Lebel, Hans Ulrich Obrist og Anne Tronche. Sýningarhönnun: Axel Hallkell Jóhannesson.

Fyrir fjölskyldur: Guli bakpokinn

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun