Hafnarhús
-
Samklipp hefur verið undirstaða listsköpunar Errós í yfir sextíu ár. Hann hófst snemma handa á því, með Meca-Make-Up myndaröðunum 1959-60, og afraksturinn fram á þennan dag eru yfir 30.000 samklipp.
Með því að safna, klippa, líma og síðan mála blandar Erró þannig frjálslega saman sjónrænu efni og tilvísunum sem umbreytist í kraftmikil, sláandi og hlífðarlaus listaverk. Með því ljær hann nýja merkingu þeim aragrúa mynda sem nálgast má í mannkynssögunni, fréttum, alþjóðlegum miðlum og hversdagslífi nútímamannsins.
Frá 1989 hefur Erró gefið Listasafni Reykjavíkur yfir 700 af samklippum sínum, safnið er umfangsmikil þjóðargersemi sem heldur áfram að vaxa. Í kjölfar nýjustu uppfærslu á samklippum í Errósafninu er þessari sýningu ætlað að kynna verkin ásamt öðrum sem spanna gjörvallan litríkan feril listamannsins. Á sýningunni má rekja tryggð Errós við samklippið, sem leið til að skapa önnur listaverk, og sem aðferð til að halda áfram að segja óvæntar sögur.
Erró (f. 1932, Ólafsvík) býr og starfar í París, þangað sem hann flutti árið 1956 með viðkomu í Noregi, Þýskalandi og Ítalíu. Erró var meðal helstu fulltrúa evrópsku framúrstefnunnar á sjöunda áratugnum og tengist ekki einungis endurnýjun fíguratífs myndmáls, vegna uppgötvana hans á sviði málverka sem byggjast á frásögn og samklippi, heldur einnig hreyfingum sem kenndar eru við uppákomur og tilraunakvikmyndir. Þrátt fyrir að verk hans séu oft sett í samhengi listastefna eins og súrrealisma, fígúratífrar frásagnar og popplistar, væri ógerningur að fella þau undir eina þeirra.