Hafnarhús
-
Á sýningunni Erró – Klippimyndir gefst almenningi í fyrsta skipti tækifæri til að skoða um það bil 130 klippimyndir sem Erró hóf að gefa Listasafni Reykjavíkur árið 1989.
Danielle Kvaran er sýningarstjóri Erró sýningarinnar, en auk þess að setja upp sýningar í Listasafni Reykjavíkur á verkum Errós, hefur hún ritað bækur, sýningarskrár og greinar um listamanninn. Í texta um klippimyndasýninguna segir hún m.a.: „Klippimyndir eru listform sem Erró uppgötvaði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1950–1951. Þar notaði hann rifinn eða tilklipptan litaðan pappír til þess að búa til óhlutbundin og hlutbundin verk með fyrirmyndir úr nútímalistasögu og ýmsum alþýðuhefðum.
Erró hóf þó ekki meðvitað notkun samklippu fyrr en í lok sjötta áratugarins og þá í formi mynda og prentaðra texta.
Árið 1958 gerði hann syrpu samklipputeikninga í Ísrael, Radioactivity, sem vísar í herferð franskra súrrealista gegn kjarnorku. Þessi verk eru samsett af myndbrotum eða setningum sem klipptar eru úr blöðum annars vegar og hins vegar af persónum sem eru teiknaðar fríhendis og þrungnar spennu.
Ári síðar í París, hættir Erró að beita grafík í klippimyndum sínum. Í stað þess notast hann eingöngu við fundið prentað efni (til dæmis vinsæl tímarit og rit um tæknileg efni). Á árunum 1959–1960 gerir hann myndasyrpuna Méca-Make-up sem er samsett úr myndum af vélum, hlutum úr verksmiðjum og fyrirsætuandlitum. Hann nær hámarki hinnar frumlegu sköpunar sinnar með því að útfæra hluta þessara fyrstu mynda í málverkum en þar með öðlaðist klippimyndin tvöfalt hlutverk: mynd heilsteypts verks með eigin ásjónu og hlutverk skissu að nýjum stíl.
Það er þó ekki fyrr en árið 1964, þegar listamaðurinn kynnist bandarísku neyslu- og fjölmiðlasamfélagi í New York, að þessi tvíþætta aðferð verður kerfisbundin og klippimyndin verður „einstakur lykill að sköpunarvirkni og gerð allra verka hans“ (Alain Jouffroy, 1981).
Allt frá árinu 1989 hefur Erró gefið Listasafni Reykjavíkur 472 klippimyndir sem spanna langan feril listamannsins. Á sýningunni eru til sýnis samklipputeikningar og samklippuuppsetningar, en einnig tilklipptar pappírsmyndir frá námsárunum. Tímaröð er fylgt sem útilokar þó ekki þemaskiptingu, enda skapar Erró verkin yfirleitt í þematengdum syrpum. Í lokahluta sýningarinnar er veitt innsýn í sköpunarferli listamannsins þar sem ákveðin málverk eru tengd við klippimyndirnar sem lagðar eru til grundvallar að þeim.".
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Danielle Kvaran
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort
Sýningarskrá JPG