Veldu ár
Erró: Heimurinn í dag
Guðmundur Guðmundsson, öðru nafni Erró (f. 1932), er tvímælalaust einn þekktasti samtímalistamaður Íslendinga. Hann hefur verið þátttakandi í framsæknu listalífi Parísarborgar allt frá árinu 1958 og er einn af forvígismönnum popplistarinnar eða evrópska frásagnarmálverksins.
Á sýningunni gefur að líta ólíkar gerðir af myndverkum listamannsins frá síðastliðnum ellefu árum sem hann hefur fært Listasafni Reykjavikur að gjöf. Verkin eru á sjöunda tug og varpa skýru ljósi á það hve Erró er fjölhæfur í efnistökum og aðferðum við listsköpun sína. Þar má nefna samklippimyndir, vatnslitamyndir, smelti-, og málverk.
Erró byggir verk sín á tilvísunum í myndir annarra sem hann klippir og skeytir saman á nýjan hátt. Myndefnið tengist gjarnan hugmyndum listamannsins um kraft og hvernig það birtist í myndmálinu sem ofbeldi, náttúruhamfarir, erótík, stríð, ærslagangur eða yfirgengilegur mannsöfnuður.
Frá árinu 1989 hefur Erró fært Listasafni Reykjavíkur listaverkagjafir sem nú telja yfir 4000 verk.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.