Erró - Grafík

Erró - Grafík

Erró - Grafík

Hafnarhús

-

Listasafn Reykjavíkur hefur undanfarin ár staðið fyrir árlegum sýningum úr Errósafninu þar sem ýmsir þættir í list Errós eru skoðaðir ýmist inntakslega eða efnislega. Í þetta sinn var ákveðið að beina sjónum að grafík verkunum sem töluvert er af í safninu. Verkin eru frá ýmsum tímabilum en flest frá síðari árum, en Erró hefur af miklu örlæti verið að bæta við verkum í safnið - og í tilefni af þessari sýningu fékk safnið að gjöf um 35 ný og nýleg grafík verk frá listamanninum.

Erró er meistari frásagnarinnar.

Erró vinnur verkin sín í seríum eða myndaflokkum þar sem hann teflir saman myndbrotum af ýmsu tagi, úr myndasögublöðum, úr listasögubókum, úr tímaritum, af póstkortum. Samankomin á myndflötinn skapa þessi myndbrot nýja frásögn sem áhorfandanum er boðið að taka þátt í að búa til allt eftir áhuga hans þekkingu og menningu.

En það er ekki aðeins inntak verka Errós sem er fjölbreytilegt og kraftmikið, heldur er efniviður verka hans líka fjölbreyttur. Hann vinnur myndverk sín í samklipp (collage) málverk, vatnslitamyndir, grafikverk, skúlptúra, emaleruð verk og jafnvel útskornar myndir. Í Errósafni Listasafns Reykjavíkur sem er að meginuppistöðu gjöf listamannsins til Reykjavíkurborgar árið 1989, má finna alla þessa miðla, þar á meðal fjöldann allan af grafíkverkum. Það eru þessi verk sem sýningin Erró - Grafík samanstendur af.

Á sýningunni eru verk sem gerð voru á áttunda áratug síðustu aldar allt til dagsins í dag.

Flest öll verkanna hafa einnig verið unnin sem málverk, líkt og grafíkverkin úr seríunni "Síðasta heimsókn Maó til Feneyja" sem var fyrst sýnd á Feneyja tvíæringnum ári 2003 og byggð eru á eldri seríu eða Kínversku málverkunum frá árunum 1974-79 þar sem teflt er saman upphöfnum áróðursmyndum þóknanlegum kínverskum valdhöfum á þeim tíma og þeirri sýn á vestrænar borgir sem einkennir myndir á póstkortum og í ferðamanna bæklingum, myndrænir, fallegir staðir í veðurblíðu. Einnig eru á sýningunni verk sem tilheyra seríunni Háskakvendi (Femmes fatales) sem Erró hefur sýnt sem málverk og grafík víða um heim, ásamt nýrri verkum þar sem hann teflir saman myndum af brúðum og þekktum táknmyndum vestrænnar menningar svo sem Marilyn Monroe og Elvis Presley.

Einnig má sjá á sýningunni nokkrar grafík myndir sem unnar voru upp úr veggskreytingu sem Erró gerði fyrir borgarstjórnarsalinn í ráðhúsinu í Lille í Frakklandi árið 1991 en hann var fenginn ásamt öðrum listamönnum til að skreyta ráðhúsið með myndverkum. Erró vann verkið á sinn hátt; klippti saman ýmsar myndir sem samsettar mynduðu brot úr sögu Lille sem síðan voru yfirfærðar sem veggmálverk, frá gólfi til lofts..

Myndir af sýningu

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarskrá

Umfjöllun fjölmiðla

Listamenn

Sýningarskrá JPG