Erró

Málverkið Nervescape eftir Erró.

Erró

Hafnarhús

07.06.2025-03.05.2026

Erró er á meðal þeirra íslensku listamanna sem náð hafa fótfestu í heimi alþjóðlegrar myndlistar.

Listasafn Reykjavíkur varðveitir heilstætt safn verka eftir listamanninn og er Hafnarhús vettvangur reglulegra sýninga á verkum hans. Þessi yfirlitssýning endurspeglar litríkan ferli listamannsins en á löngum ferli hefur hann fengist við ýmsa miðla myndlistarinnar. Þar má finna allt frá gjörningum, vídeólist, grafík, fjölfeldi og klippimyndum, til stórra verka í almannarými og málverka á öllum skala, sem hafa unnið honum verðugan sess í evrópskri listasögu.

Á þessari sýningu verða helstu verk listamannsins og tækifæri til að kynnast ólíkum viðfangsefnum hans svo sem ádeilu á neyslusamfélagið, pólitísk deilumál og þá ofgnótt upplýsinga sem einkennir nútíma samfélag.

Listamaðurinn Erró, fæddur Guðmundur Guðmundsson árið 1932 í Ólafsvík á Snæfellsnesi, var í fararbroddi evrópsku framúrstefnunnar á sjöunda áratugnum. Í listasögu þessa tímabils er nafn hans ekki aðeins tengt endurnýjun fígúratífs myndmáls, vegna uppfinningar hans á frásagnarmálverkum sem byggja á samklippi, heldur einnig við hræringar sem á sínum tíma voru kenndar við uppákomur og tilraunakvikmyndir. Erró sækir innblástur í hnattvædda veröld okkar með sínu látlausa flæði mynda og upplýsinga.

Yfirlitssýning þessi rekur feril Errós og er leitast við að endurspegla fjölbreytileika ferilsins allt fram til nýjustu verka hans. Sýningin bregður upp mynd af glæsilegum ferli Errós og byggir á listaverkagjöf listamannsins til Reykjavíkurborgar. Árið 1989 tók Reykjavíkurborg við stóru safni, um 2000 verkum eftir listamanninn, auk skjala og annarra gangna sem hafa mikið gildi fyrir rannsóknir sem snerta listamanninn og samtíma hans. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu árin og telur nú um 4000 listaverk. Errósafninu var fundinn staður í Hafnarhúsi og var gjöfin grunnur þess að Listasafn Reykjavíkur hóf starfsemi í húsinu. Sýningar úr safni Errós eiga sér þar fastan sess en með þeim er leitast við að gefa innsýn í ólíkar áherslur í verkum hans.

Ítarefni

Sýningarstjóri

Danielle Kvaran

Listamenn