Hafnarhús
-
Ferill Magnúsar Pálssonar einkennist af því hversu víða listamaðurinn hefur komið við og markað spor. Sem kennari hefur hann haft mikil áhrif á kynslóðir listamanna. Í leikhúsi hefur hann skapað nýstárlegar sviðsmyndir og tilraunakennd leikverk.
Sem gjörningalistamaður er Magnús ótvíræður frumkvöðull. Í myndlist er hann lykilmaður í hinum miklu breytingum sem urðu á þeim vettvangi á sjöunda og áttunda áratugnum. Við endurskoðun á eðli listsköpunar varð til nýtt myndmál sem byggðist á gagnrýnni afstöðu til listasögunnar fram að því en opnaði um leið nýjar leiðir til framtíðar. Magnús prófaði sig áfram með verk sem að sumu leyti voru í anda flúxus, pop og konseptlistar en eru að sama skapi algjörlega einstök.
Árið 2013 beindi Listasafn Reykjavíkur sjónum að gjörningum Magnúsar Pálssonar 1980-2013 á sýningunni Lúðurhljómur í skókassa sem unnin var í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík. Að þessu sinni, á sýningunni EITTHVAÐ úr ENGU, er áherslan á efnislegan myndheim listamannsins.
Valin eru saman verk frá því snemma á sjöunda áratugnum til samtímans sem endurspegla þá frjósömu hugsun sem Magnús hefur alla tíð sýnt í höggmyndum, bókverkum og tvívíðum verkum. Á sýningunni eru verk úr safneign, verk sem fengin eru að láni víða að sem og úr eigu listamannsins. Þess má geta að Listasafn Reykjavíkur hefur til varðveislu heimildasafn Magnúsar Pálssonar en hann hefur haldið til haga miklu efni á sex áratuga ferli. Efnið er varðveitt í á þriðja hundrað skjalakassa sem eru ómetanleg heimild um listsköpun Magnúsar..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Markús Þór Andrésson, Sigurður Trausti Traustason
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort