Veldu ár
Dan Perjovschi: News from the Island
Rúmenski listamaðurinn Dan Perjovschi (f. 1961) hefur vakið athygli fyrir tilkomumiklar teikningar sem oft á tíðum þekja heilu sýningarsalina. Teikningarnar eru unnar frjálslega með svörtu tússi beint á veggi sýningarhúsnæðisins. Þær samanstanda af texta og fígúrum sem oft á tíðum eru háðslegar en jafnframt hápólitískar. Innblástur sækir hann í hin ýmsu málefni og ekkert er honum óviðkomandi, allt frá alþjóðlegum pólitískum viðfangsefnum yfir í æsifréttamennsku slúðurtímarita. Perjovschi notar tungumál myndasögunnar og grafitílistarinnar, oft í formi satíru þar sem félagsleg mál og staðarhættir hverju sinni eiga það til að fléttast á óvæntan hátt inn í myndmál hans. Með verkum sínum gagnrýnir hann áhrifamátt fjölmiðla og markaðshyggjunnar og setur spurningarmerki við viðtekin gildi og venjur vestrænnar menningar.
Dan Perjovschi vakti fyrst alþjóða athygli sem fulltrúi Rúmena á Feneyjartvíæringnum árið 1999 með pólitískum veggmyndum sem vísuðu í lífið í Rúmeníu eftir fall kommúnismans. Hann hefur teiknað á veggi safna og gallería víða um Evrópu og Ameríku, þar á meðal Tate Modern í London, MOMA í New York og Centre Pompidou í París. Perjovschi býr og starfar í Bucharest og Sibiu, Rúmeníu.

Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.