Daði Guðbjörns­son: Á slóðum Ódysseifs

Daði Guðbjörnsson: Á slóðum Ódysseifs

Daði Guðbjörnsson: Á slóðum Ódysseifs

Kjarvalsstaðir

-

Litrík og ærslafull málverk Daða Guðbjörnssonar (1954) hafa notið mikillar lýðhylli og eru vel þekkt meðal almennings. Skrautið og flúrið í verkum sínum segir Daði að rekja megi til einhverskonar barokkstíls, en allt frá upphafi níunda áratugarins hefur Daði verið ötull við sýningarhald. Hann hefur tekið þátt í ótal samsýningum um heim allan og haldið tugi einkasýninga auk þess sem verk eftir hann eru í eigu allra helstu safna í landinu.

Í tilefni af opnun sýningar Daða á Kjarvalsstöðum mun Opna gefa út bók, ríkulega skreytta myndum og með texta eftir Rögnu Sigurðardóttur rithöfund og listgagnrýnanda.

DAÐI GUÐBJÖRNSSON Á SLÓÐUM ÓDYSSEIFS

Sýning Daða á Kjarvalsstöðum er innblásin af hinum mikla kvæðabálki Hómers um hrakfarir og hetjudáðir Ódysseifs, sem talið er að gerst hafi um 1200 f.Kr. Ódysseifur stefnir heim á leið eftir fall Trójuborgar. Sjávarguðinn Póseidon er honum reiður og aftrar för hans og Ódysseifi er haldið í gíslingu hjá gyðjunni Kalypso um árabil. Á meðan syrgir Penelópa kona hans heima við. Höll þeirra fyllist af biðlum sem hún hvorki játast né hafnar og einkasonurinn Telemakkus fær ekkert við ráðið.

Stór hluti kviðunnar lýsir miklum raunum og hafvillum, en Ódysseifur kemst heim um síðir, með dyggri hjálp hinnar „glóeygu Aþenu,“ dóttur Seifs.

Hann vinnur sigur á biðlunum og ævintýrið fær farsæl endalok. Líkt og Ragna Sigurðardóttir bendir á í bókinni um Daða „…má líta á söguna af villum Ódysseifs sem allegoríu, táknsögu af mannlegri reynslu.

Við lifum í blekkingu, það er erfitt að finna réttu leiðina og hún er ekki sú sama fyrir neitt okkar. Við erum alltaf að villast. Íslenska þjóðin er enn að leita að leiðinni heim eftir skipbrot ársins 2008, þegar góðærið reyndist tálsýn. Enn er langt í land og ekki ríkir sátt um leiðina heim eða hvernig heimilishaldinu skal háttað, við látum stöðugt glepjast.“

Daði hefur um árabil lagt stund á Sahajayoga, sem er hugleiðsluyoga og segir sjálfur að það hafi haft mjög jákvæð áhrif á vinnu sína og andlega líðan. Í nokkrum verkum málarans er vísað beint eða óbeint til þessarar hugleiðslu og andlegrar upplifunar listamannsins..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Hafþór Yngvason

Umfjöllun fjölmiðla

Listamenn

Boðskort

Sýningarskrá JPG