D48 Dýrfinna Benita Basalan: Langa­vit­leysan – Chronic Pain

D48 Dýrfinna Benita Basalan: Langavitleysan – Chronic Pain

D48 Dýrfinna Benita Basalan: Langavitleysan – Chronic Pain

Hafnarhús

-

Dýrfinna Benita varpar á sýningu sinni fram spurningum um sameiginlegt minni og hversdagsleikann í sinni látlausu og jafnframt átakanlegu mynd.

Innsetningin er innblásin af hugtakinu „gott vont” – eitthvað sem er vont að upplifa en þegar á botninn er hvolft er það til góðs. Eins af æskustöðvum listamannsins í Breiðholti þar sem einkennandi veggir aðskilja einkarými og almenningssvæði, og þar sem leikvellir eru umkringdir íbúðablokkum með óteljandi gluggum. Á veggjum salarins eru teikningar, einskonar gluggar inn í heim listamannsins; heim fjölskyldu hennar og annarra filippseyskra innflytjenda í Breiðholti, heim sem hefur ekki verið í hávegum hafður.

Ég á móti heiminum, 2022, Blýantur, trélitur, svart blek og olíupastellitur á pappír.

Í tvöföldu heiti sýningarinnar kemur fram tvíhyggja sem Dýrfinna Benita upplifir sem blandaður einstaklingur. Raunveruleiki þar sem hún nýtur þeirra forréttinda að vera Íslendingur en tilheyrir þó jaðarhóp. Á meðan Langavitleysan er marglaga og leikandi orð er chronic pain enska heitið yfir langvinna verki, sársauka sem listamaðurinn og margir aðrir þekkja. Tvöfalt heitið kemur til af þörf listamannsins til gera sig auðmeltanlegri með húmor eða kaldhæðni fyrir hvítan íslenskan almenning af millistétt, og á móti tækifæri á óhindraðri hreinskilni í öruggu rými meðal þeirra sem skilja eða upplifa það að vera utangátta.

Þeir sem þekkja til í Breiðholti vita að Langavitleysa er viðurnefni 320 metra langrar blokkar í Fellahverfinu sem klýfur hverfið eins og virkisveggur. Einnig er Langavitleysa heiti á spili sem getur tekið óratíma að spila og snýst um að tveir leikmenn trompa hvor annan þar til annar stendur uppi með öll spilin og vinnur leikinn. Í spilinu þarf lukkan að vera með manni því örlögin felast í spilunum sem liggja á borðinu. Með sýningunni hugsar Dýrfinna Benita til þeirra sem tilheyra jaðarsettum hópum og spyr hvort hægt sé að ná jafnvægi? Hún notar hér sín eigin forréttindi sem myndlistarmaður með vettvang til sýningar í opinberu safni til að fanga raunveruleika sem hefur varla verið sýnilegur í Íslenskri myndlist hingað til.

Mismunur, 2023, Stál, skipamálning, viður.

Vegasaltið er tákn um ójafnvægi í samfélaginu, þar sem annar endinn er hátt uppi og hinn er fastur á jörðu niðri. Þessi sjónræna myndlíking vísar til misskiptingar á auði og auðlindum, og hefur sú misskipting viðvarandi áhrif á samfélög um allan heim. Ætlun listamannsins er að varpa ljósi á krefjandi veruleika sem jaðarsettir einstaklingar standa frammi fyrir. Verkið er tileinkað móður listamannsins, sem er filippseyskur innflytjandi og einstæð móðir, en hún hefur háð ævilanga baráttu við fátækt og veikindi, einkum nýrnabilun. Þessi skúlptúr hefur það að markmiði að heiðra hvetjandi eiginleika hennar og vekja athygli á þeim óteljandi einstaklingum sem þrauka, full af reisn og örlæti, þrátt fyrir mótlæti.

Dýrfinna Benita Basalan (f. 1992) er fædd og uppalin á Íslandi. Árið 2018 útskrifaðist hún frá Gerrit Rietveld Academie með B.A. gráðu í myndlist og hönnun. Hún dregur myndheim sinn ýmist úr jaðar menningu, manga, hinsegin menningu og persónulegri reynslu sinni sem blandaður einstaklingur. Dýrfinna er einn af þremur meðlimum Lucky 3 hópsins ásamt Melanie Ubaldo og Darren Mark sem vann hvatningarverðlaun myndlistarráðs 2022. Sýningaröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni. Dýrfinna er 48. listamaðurinn til að sýna í röðinni.

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarstjóri

Aldís Snorradóttir

Listamenn