D47 Logi Leó Gunn­ars­son: Allt til þessa höfum við ekki skilið það dularmál sem berst frá þessum hljóð­gjöfum

Allt til þessa höfum við ekki skilið það dularmál sem berst frá þessum hljóðgjöfum

D47 Logi Leó Gunnarsson: Allt til þessa höfum við ekki skilið það dularmál sem berst frá þessum hljóðgjöfum

Hafnarhús

-

Logi Leó Gunnarsson er 47. listamaðurinn til að sýna í sýningarröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal.

Logi Leó vinnur með hljóð, skúlptúra og vídeó í óvæntum samsetningum og innsetningum sem gjarnan yfirtaka sýningarrýmið á kankvísan hátt. Logi notast við hversdagslegan efnivið í bland við tónlist, upptöku og hljóðbúnað og fær þannig áhorfendur til að horfa og hlusta á kunnuglega hluti á nýjan hátt.

Logi Leó Gunnarsson (f.1990) býr og starfar í Reykjavík. Hann útskrifaðist með BA gráðu í Myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og hafa verk hans meðal annars verið sýnd í Grikklandi, Noregi, Sviss og Rússlandi. Logi Leó tók þátt í sýningu Listasafns Reykjavíkur Abrakadabra 2021.

Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.

Ljósmynd af sýningu

Þolinmæði er dyggð. Þetta er gott að muna þegar þess er krafist af okkur að bíða. Þolinmæði er dyggð, alveg eins og að þakka fyrir sig, klára matinn sinn og að halda fyrir munninn þegar hvellur hósti rífur þögnina. Allt eru þetta dyggðir. Við hvert fótmál eru óskrifaðar reglur og að tilheyra samfélagi felur í sér þekkingu á þessum boðorðum, þekkingu á þessum takti í gangverki tilverunnar. Í taktinum felst lykillinn að straumlínulöguðu ferðalagi í gegnum veröld sem er full af hættum (misfellum í jörðinni, hraðskreiðum bílum, dulkóðuðum skilaboðum og viðsjárverðum hindrunum). En lyklar eiga það til að týnast. Þetta vitum við öll. Einhvers staðar innst inni vitum við að lykillinn er ekki alltaf á vísum stað og að stundum þarf að opna eyrun til að sjá, loka augunum til að heyra.

Brynja Hjálmsdóttir

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarstjóri

Þorsteinn Freyr Fjölnisson

Umfjallanir fjölmiðla

Listamenn