Hafnarhús
-
Andreas Brunner leiðir áhorfendur á óræðar lendur á sýningu sinni. Í leit að haldreipi stoðar takmarkað að rýna í inntak, efni eða form einstakra verka. Þvert á móti kann vísbending að vera fólgin í því hve ólík þau eru og ósamstæð.
Jafnframt skyldi maður leiða hugann að því sem virðist vanta. Andreas forðast fullkomleika og samhverfu en laðast að hinu gallaða og brotakennda. Honum er hugleikin hugmyndin um stöðuga framvindu og umbreytingu, sem samt sem áður tekur á sig birtingarmynd hringrásar. Einhvers konar spíralhreyfing sem ætlar engum botni að ná og brotlendir því aldrei. Afsteypa kvenhandar með granatepli er samkvæmt gömlum sið notuð sem hurðabankari.
Þar er vísað til gyðjunnar Persefónu sem er táknmynd árstíðanna, en hún nærðist á safa ávaxtarins til að lifa veturinn af í undirheimum hjá ástmanni sínum, Hadesi. Hvað með íspinna sem er í laginu eins og geimflaug og bráðnar í hendi listamannsins? Samhljómurinn er til staðar, ómstríður en aðlaðandi. Hluti af sýningunni er gjörningur sem er í gangi á mánudögum og föstudögum kl. 14.30-15.00 og 15.20-15.50.
Andreas er fæddur árið 1988 í Zürich í Sviss en býr og starfar í Reykjavík. Hann nam myndlist við Lucerne University of Applied Science and Arts og stundaði framhaldsnám Listaháskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist árið 2018. Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni. Andreas Brunner er 41. listamaðurinn til að sýna í sýningarröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal..
Umfjöllun fjölmiðla PDF
Sýningarstjóri/-ar
Markús Þór Andrésson
Listamenn
Boðskort