Birgir Andrés­son: Eins langt og augað eygir

BIRGIR ANDRÉSSON Frímerki (40 aurar, fáni), 1989 silkiþrykk og olía á masonít 77 x 103 cm.

Birgir Andrésson: Eins langt og augað eygir

Kjarvalsstaðir

-

Eins langt og augað eygir er fjölbreytt og umfangsmikil yfirlitssýning á verkum myndlistarmannsins Birgis Andréssonar (1955-2007) sem tekur yfir nær alla Kjarvalsstaði. Birgir var leiðandi afl í íslenskri myndlist í meira en 30 ár en féll frá langt fyrir aldur fram. Birgir leitaði í brunn íslenskrar menningar, sagna, hefða og handverks þjóðarinnar og dró þar fram þætti sem hann síðan setti fram á sinn einstæða hátt í verkum sem tryggðu honum sess í íslenskri listasögu og aðdáun á alþjóðlegum vettvangi myndlistar.

Sýningin veitir innsýn í áhrifamikinn feril listamannsins og tengir verk hans við innlenda og erlenda samtímalist. Sýnd eru yfir eitthundrað verk sem koma meðal annars úr safneign Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins og Metropolitan safnsins í New York en einnig frá innlendum og erlendum einkasöfnurum. Sýningarstjóri er bandaríski listfræðingurinn Robert Hobbs. Ásmundur Hrafn Sturluson er hönnuður sýningarinnar. Samtímis sýningunni kemur út bók á ensku um ævistarf Birgis Andréssonar, In Icelandic Colour, en þar verður að finna ritgerð eftir Hobbs með sama nafni. Sýningin í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum nýtur stuðnings Arion banka.

Birg­ir Andrésson nam mynd­list við Mynd­lista- og handíðaskól­ann 1973 til 1977 og fór síðan til fram­halds­náms í mynd­list við Jan van Eyck Aka­demie í Ma­astricht í Hollandi 1978 til 1979. Birgir var valinn til að taka þátt í Feneyjatvíæringnum árið 1995 fyrir hönd Íslands. Verk hans hafa verið sýnd á virtum sýningarstöðum jafnt hérlendis sem erlendis og eru í opinberum safneignum og einkasöfnum víða um heim. Nýlega bættist verk eftir hann í safneign Metropolitan safnsins í New York. Frá Robert Hobbs sýningarstjóra:

Árið 2005 skrifaði hugmyndalistamaðurinn Birgir Andrésson (1955-2007): „Ég sé sjálfan mig sem ég hafi verið getinn í „blindni“.“ Hann virðist vera að vísa í blinda foreldra sína og uppvöxt á Blindraheimilinu í Reykjavík, gæsalappirnar utan um orðið „blindni“ og síðari athugasemd hans: „það er hrein heppni … einfaldlega að vera hluti af þessari vitleysu,“ vitna um það afgerandi listræna sjónarhorn sem óvenjuleg barnæskan veitti honum.

Árið 1989 hóf Birgir að vinna með hugtakið nálægð. Orðið vísar til kenningar þýska heimspekingsins Martins Heidegger (1889-1976) á miðri tuttugustu öldinni og vera má að Birgir hafi fyrst rekist á það seint á áttunda áratugnum þegar hann var við nám í Hollandi, sem þá var gróðrarstía hugmyndalistar. Í augum Heideggers er nálægð mótsögn, hún staðfestir vangetu mannsins til að skilja grundvallarleyndardóma lífsins, byggt á þeirri hugmynd að því nær sem maður kemst slíkum sannleik, þeim mun betur skynjar maður fjarlægð hans. Hins vegar er nálægð Birgis fremur pólitísk en heimspekileg; hún skapar áframhaldandi spennu á milli alþjóðlegra, framsækinna listaforma og þjóðlegra, íslenskra viðfangsefna. Þótt titill veggmyndarinnar Eins langt og augað eygir gefi til kynna ótakmarkað útsýni og grafi þannig undan sérstöku sjónarhorni nálægðarinnar, er skynjun í verkum Birgis háð sýn og hugmyndafræði. Hvor tveggja nálgunin getur þanist út en stundum geta þær líka verið takmarkandi og í þeim mun liggur lykillinn að verkum hans.

Hugmyndalist Birgis byggir á aðferðum tungumálsins, ljósmyndun, rannsókn á skjalasöfnum og enduruppbyggingu til að fagna íslenskum menningarhefðum, gagnrýna þær og draga í efa með þurri kímnigáfu. Sérstaklega er eftirtektarvert hve mikla virðingu hann ber fyrir áhorfendum sínum en það sést vel í því hvernig list hans rokkar á milli þess sem búist er við og þess sem kemur á óvart, sem og þess nálæga og þess fjarlæga, svo að Íslendingum og öðrum býðst að skoða sjálfa sig og hefðir sínar í hnattrænum heimi. Verk á þessari sýningu innihalda íslensk frímerki frá 1930, hönnuð af Þjóðverja í Austurríki; stækkaðar ljósmyndir af flækingum nítjándu og upphafi tuttugustu aldar, auk ítarlegra textalýsinga á íslenskum einstaklingum, gerólíkum hetjum Íslendingasagnanna. Þessi yfirlitssýning inniheldur einnig grunnmyndir af torfhúsum innfæddra, umbreyttum í myndletur fyrir nýja tegund af steyptri ljóðagerð; ullarfána, prjónaða í sauðalitunum; og málningu sem sögð er „íslensk“ þótt notast sé við bandarískt Pantone og sænskt NCS litakerfi. Í ofanálag sýna verk Birgir útlendar plöntur ræktaðar í Ora-dósum; hús og byggingar sem nefnd hafa verið eftir borgum, löndum og svæðum víðs vegar um heiminn; og samsafn íslenskra grátóna, tekið saman af útlendingi, hinum virta enska listamanni, ljóðskáldi og hönnuði Viktoríutímans, William Morris. Á heildina litið nær list Birgis yfir ótrúlega vítt svið sem byggist á þjóðlegum/alþjóðlegum mótsögnum, eins og nokkurs konar viðbrögð við Sjálfstæðu fólki, skáldsögu Halldórs Laxness frá 1934-35. Á svipaðan hátt og sá makalausi skáldskapur veitir list Birgis ferska og háðska sýn á þætti í íslenskri menningu og kemst að því að þeir eru allrar athygli verðir.

Margir samtímalistamanna Birgis minnast „mildrar kímnigáfu“ hans og „hlýrrar kaldhæðni“. Fyrrverandi nemandi hans, alþjóðlega þekkti listamaðurinn Ragnar Kjartansson hefur talað um „djúpstæðan kærleik Birgis í garð mannkynsins og tilfinningu hans fyrir fólki.“ Náinn vinur hans, hinn frægi bandaríski hugmyndalistamaður Lawrence Weiner, hefur rifjað upp að hann hlakkaði alltaf til að hitta Birgi og minnist hans ekki eingöngu sem manns sem bjó til hluti heldur listamanns sem var vel að sér í kenningum og dró stöðugt aðra og sjálfan sig í efa. Hann tók þátt í fjölmörgum einka- og samsýningum á Íslandi og í Evrópu. Fjórum árum eftir einkasýningu sína í Listasafni Reykjavíkur 1991, var Birgir valinn fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum. Árið 2000 var einkasýning á verkum hans haldin í Listasafni Íslands og 2006 yfirlitssýning ferils hans hjá sömu stofnun. Bókmenntarýnirinn og ritstjórinn Þröstur Helgason skrifaði fræðirit um list Birgis 2011, þar sem hann skrásetur margar forvitnilegar og djúpsæjar sögur hans. Árið 2017 festi Metropolitan-listasafnið í New York kaup á veggmynd Birgis, Eins langt og augað eygir, í viðleitni til að styrkja alþjóðlega listaverkaeign sína. Titill verksins er jafnframt titill núverandi yfirlitssýningar á verkum Birgis.

Dr. Robert Hobbs.

Myndir af sýningu