Bernd Koberling

Bernd Koberling

Bernd Koberling

Hafnarhús

-

"Eftir að hafa aðeins þekkt Bernd Koberling af afspurn - sem sérstakan listamann, og ekki síður sem mikinn  aðdáanda eyðibyggðar Loðmundarfjarðar, varð okkar fyrsti fundur mikil upplifun. Eftir að við höfðum rætt saman í síma, birtist Bernd á Kjarvalsstöðum eitt haustið með þykkan böggul undir hendinni; þessi kviki maður vildi sýna mér afrakstur sumardvalarinnar fyrir austan, áður en hann hyrfi aftur til heimaborgar sinnar, Berlínar. Þessi heimsóknin hefur lifað í minningunni.

Í bögglinum góða var stórt hundrað vatnslitamynda sem Bernd hafði unnið í Loðmundarfirði í misjafnri tíð sumarsins. Meðal þeirra blaða sem við dreifðum á borð og stóla var mörg gullkorn að finna – svipi lands og lita, sólskins og súldar, veðurs og vinda, gleði og geðshræringa. Sumar listamannsins fyrir austan blasti hér við í öllum sínum tilbrigðum: landið, litirnir, umhverfið og líðan hans í einangrun hins afskekkta fjarðar.Smáblómið sem titraði í golunni, lyngið sem glóði í mosanum, grasið sem laut fyrir regninu – allt hið smágerða líf sem braust á undraverðan hátt fram úr þessum óhlutbundnu myndum bar vitni svo næmri vitund, að undrun sætti.

Opinberun er eina nothæfa orðið yfir þær tilfinningar sem þessi verk vöktu með mér þennan haustdag. Hér var komin enn ein staðfesting þess að einlægir listamenn geta séð ótrúlegan efnivið í því sem ber fyrir augu okkar hversdagslega. Verk þeirra geta haft sterka skírskotun til mun víðara samhengis, og fengið okkur til að hugleiða tilveruna og fjölbreytt tilbrigði hennar af  æðruleysi.

Þau sýna okkur að við erum sjálf aðeins hluti af stærri heild, sem okkur ber að virða og hlúa að.           

Þegar í lok þessa fyrsta fundar okkar var vikið að möguleikanum á að fá Bernd til að halda sýningu á verkum sínum hér á landi. Samtalið beindist einkum að þeim möguleika að gera úttekt á þeim vatnslitamyndum sem hann hefur málað hér, eða jafnvel að einskorða úrvalið við þær myndir, sem hafa verið valdar til að prýða sérstaklega fallegar þýskar útgáfur á verkum íslenskra skálda eins og Baldurs Óskarssonar og Gyrðis Elíassonar.Þessi hugmynd fékk síðan að þróast í friði og ró, en að lokum varð ofan á að tengja sýningu hér við stóra yfirlitssýningu á verkum hans sem var í undirbúningi undir forystu Beru Nordal, forstöðumanns Malmö Konsthall í Svíþjóð. Sú sýning sem haldin er í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi er afraksturinn af þessu samstarfi, sem einnig nær til Saarland-listasafnsins í Saarbrücken í Þýskalandi, en þangað fer sýningin eftir að henni lýkur í Reykjavík.   

Tæpum aldarfjórðungi eftir að Bernd Koberling kom fyrst til Íslands gefst landsmönnum nú loks tækifæri til að sjá stóra sýningu verka hans hér á landi. Erlendis hafa menn séð í þeim fjölskrúðugar tilvísanir til náttúru landsins, líkt og lesa má í þessari sýningarskrá, þar sem einnig er fjallað um táknrænt gildi þeirra fyrir lífsviðhorf listamannsins, viðhorf sem endurspegla tilvistarkreppu mannsins. Því er ljóst, að myndlist sem kviknar í íslenskri náttúru þarf ekki að vera einangrað fyrirbæri á alþjóðavettvangi, heldur á erindi við okkur öll á tímum vaxandi árekstra alþjóðavæðingar og einangrunar, misnotkunar mannsins á náttúrunni vegna  eiginhagsmuna og verndar hennar fyrir almannaheill.Bernd Koberling sækir ekki aðeins til Íslands til að vinna að list sinni, heldur einnig til að veiða á stöng, kynnast íslenskum listamönnum, njóta náttúrunnar og fræðast um íslenskar bókmenntir, sem hann hefur síðan stutt dyggilega og haldið fram í heimalandi sínu. Hann hefur því í gegnum tíðina eignast marga góða vini hér. Íslendingum gefst nú kostur á að meta verk Bernd Koberlings upp á eigin spýtur og hvað þau hafa að gefa okkur – og þá um leið hvað landið  og náttúra þess hefur gefið honum í öll þessi ár."

Eiríkur Þorláksson..

Myndir af sýningu