Ásmundur Sveinsson Listin meðal fólksins

Ásmundur Sveinsson  Listin meðal fólksins

Ásmundur Sveinsson Listin meðal fólksins

Ásmundarsafn

-

Sýning sem fjallar um hugmyndir listamannsins um með hvaða hætti mögulegt- og æskilegt - væri að staðsetja listaverk í borgarlandinu og á opinberum vettvangi. Á sýningunni "Listin meðal fólksins" eru verk Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara skoðuð út frá þeirri hugsjón hans að myndlistin ætti að vera á meðal fólksins en ekki lokuð inni á söfnum.

Á námsárunum í Stokkhólmi hreifst Ásmundur af hugmyndum kennara síns, myndhöggvarans Carl Milles, um að myndlistin ætti að vera hluti af landslagi borgarinnar. Við Sænsku listaakademíuna lagði Ásmundur stund á „skrautlist“ í víðasta skilningi þess orðs, allt frá húsaskreytingum til listrænnar mótunar almenningsrýmis í borgum, samhliða námi í hefðbundinni höggmyndalist.

Með námi vann hann með arkitektum að gerð veggskreytinga og var m.a. valinn úr hópi nemenda til að gera tillögur að myndskreytingum í tónlistarhús Stokkhólmsborgar, lykilbyggingar í sænskri byggingarlist á 20. öld.

Á fyrstu áratugum aldarinnar urðu miklar breytingar á viðhorfi manna til höggmyndalistar. Margir listamenn sneru baki við hefðbundnum aðferðum 19. aldar og tóku að höggva út í tré og stein í bókstaflegri merkingu orðanna, í stað þess að móta verk sín í leir og láta handverksmenn um að stækka þau.

Í þessu fólst afturhvarf til upprunalegri vinnubragða og krafa um að listamenn ynnu verk sín sjálfir.

Fyrri heimsstyrjöldin hafði í för með sér enn meiri umbrot og þörf á endurskoðun á stöðu og hlutverki listarinnar í samfélaginu. Ásmundur minntist umbrotanna, öfganna og byltingarandans sem einkenndi listina á Parísarárum hans og mótuðu hann ekki síður en menntun hans við Sænsku listaakademíuna: „...þegar ég lít til baka yfir skólaárin, voru það ekki kennararnir sem úrslitum réðu, heldur félagslífið. Skólasystkinin og þetta þrungna andrúm alls kyns forma, tilrauna og sköpunar. Og kúbisminn, eða kubbastíllinn, sótti á mig, hann lá í loftinu.“

Ásmundur hélt alla tíð tryggð við þá hugmynd að listin ætti erindi til fólksins og ætti heima á meðal þess. Hann var kallaður alþýðuskáldið í myndlist og án efa á þessi hugsjón rætur að rekja til lífsafstöðu hans, ekki síður en höggmyndahefðarinnar. Viðleitni hans til að færa listina nær fólkinu birtist með ýmsum hætti. Flestar höggmyndir hans voru hugsaðar sem verk í opinberu rými, órofa hluti af umhverfi sínu eða útfærðar sem hönnun og nytjahlutir. Hann byggði með eigin hendi framúrstefnuleg hús yfir sig og verk sín, opnaði höggmyndagarða við heimili sín og stækkaði nokkur helstu verk sín á eigin kostnað til að almenningur fengi betur notið þeirra.

Á sýningunni er listferill Ásmundar settur í samhengi við veruleika þess samfélags sem hann bjó og starfaði í. Áhersla er lögð á viðleitni hans til að móta og auðga daglegt umhverfi og hugmyndaheim fólks með verkum sínum. Ævistarf hans er einnig skoðað í alþjóðlegu samhengi til að varpa ljósi á þær ótrúlegu samfélagsbreytingar, tækniþróun og sögulegu framvindu sem Ásmundur upplifði og tók að vissu marki þátt í á lífsleið sinni. Hanna Guðrún Styrmisdóttir, Pétur H. Ármannsson..

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Pétur H. Ármannsson, Hanna Styrmisdóttir

Umfjöllun fjölmiðla

Listamenn

Boðskort

Sýningarskrá JPG